4. febrúar 2005

Hundar og börn

Það er hundur í einni vinnunni hjá mér, ekki ,,hundur" í "staffinu" heldur alvöru stór og mikill hundur sem var fyrir 8 mánuðum hvolpur sem var hæfilega stór til að slást við. Núna er hann orðinn stór og ég er hrædd um að hann rífi ermarnar af úlpunni minni þegar ég kem inn. Hann geltir á mig og vill flaðra upp um mig og naga á mér hendurnar og toga í ermarnar.
Þegar mér hafði tekist að losna frá þessum galsagangi öllum áðan og var ný sest við skrifboðið mætti hann inn til mín með fótbolta. Lagði boltann á gólfið við stólinn minn hallaði undir flatt, leit á mig bænaraugum og sagði ,,muurr". Hvað gerir maður annað en fara með boltann fram og sparka honum.
Ég er farin að velta því fyrir mér að temja mér aðra framkomu við hvolpa og sum börn sem ég þekki. Þau halda að ég sé í þessum heimi til að slást og leika við þau.
Sjálfskaparvíti ekki satt?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætlar þú að fara að hætta að slást við mig Attís mín, það máttu ekki. Mamma vill ekki leyfa mér að sitja á eldhúsvegnum segir að þú leyfir mér það bara og nú segir ég þegar mig langar að setjast þar "Bara Attís gera"

Ellý