23. janúar 2005

Túristinn Hafrún

Ég var túristi í dag. Labbaði í hóp af öðrum túristum með ,,gæt" eftir Laugaveginum ,,skemmri" frá þvottalaugunum niður að Laugavegi eitt og skoðaði það sem var og er og reyndi að sjá fyrir mér það sem er löng horfið. Fróðlegt og fín gönguleið.
Eftir kaffidrykkju á Sólon gekk ég áfram vestur í bæ og heimsótti gamla vini, sagði þeim að ég væri með sjúkraþjálfun heima fyrir lasburða tölvur og færði Tölvunarfræðingunum vélina þeirra í þeirri von að henni takist að endurhæfa hana.
Leiðin vestur eftir lá eftir Suðurgötunni þaðan sem ég á fyrstu minningarnar og mér hlýnar alltaf um hjartarætur þegar ég fer fram hjá kirkjugarðinum og minnist blómanna sem ég tíndi þar meðan ég var nógu nett til að skríða undir hliðgrindurnar. Ég hef ekki stundað skemmdarverk í kirkjugörðum síðan ég flutti fimm ára gömul og vona að mér fyrirgefist enda voru þau framin í þeim tilgangi gleðja aðra.
Ætli það sé þessi nálægði við kirkjugarðinn í Suðurgötunni á sínum tíma sem veldur þessum áhuga mínum á að skoða kirkjugarða bæði heima og í útlöndunum ef ég með nokkru móti kem því við.

Notalegir staðir kirkjugarðar.




Engin ummæli: