Ég fór í afmæli í kvöld.
Heimsótti vini mína sem leigðu mér risíbúð fyrir 27 árum síðan. Ég bjó þar í tvö ár og síðan hef ég talið þau til vina minna. Hef heimsótt þau þennan dag, á afmælinu hennar flest þau ár sem við höfum búið á sömu slóðum.
Það var með hálfum huga sem ég hringdi í kvöld til að athuga hvort þau treystu sér til að fá þessa árlegu innrás okkar, hafði ekki einu sinni sent þeim jólakort vegna þess að ég fann engin orð sem hæfðu á þessum jólum. En fór í kvöld og sé ekki eftir því.
Hef oft hitt börnin þeirra hjá þeim á þessum degi. Barnabörnin eftir að þau komu til sögunnar, það hefur fjölgað i hópnum og hann stækkað gegnum árin. Sum eru erlendis en flest hér heima.
Í ár vantaði tvær úr hópnum. Í minningu annarar eru tendruð kerti víða og í kertastjakanum sem skólasystkyni hennar færðu þeim í jólagjöf til minningar um hana logar stöðugt ljós þessa daga.
Hin býr í þeim raunveruleika sem er ekki okkar hinna.
Þrátt fyrir mikinn missi og veikindi ríkir birta og friður hjá þeim. Þeim tekst að nýta sér þá hjálp sem býðst sér til góðs og gleðjast yfir góðum minningum án þess að láta þær slæmu skyggja á þær.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli