2. nóvember 2004

Á einum aldarfjóðungi

Fyrir einum aldarfjórðungi fór Hafrún í verslunarleiðangur með nöfnu sinni og manninum hennar.
Var þá búin að hanga í bænum í tvær vikur innilokuð með köfnunartilfinningu af leiðundum upp á hvern einasta dag. Hafið ekkert að lesa komst ekkert út nema þá í búðir með þeim, kunni ekki á strætó og þó hún hefði kunnað á strætó veit ég svo sem ekki hvert hún hefði átt að fara. Minnir endilega hún ekki hafa túskilding til að eyða þó hún hefði skroppið í bæinn.
Það voru engar bækur til á heimilinu sem var hægt að lesa. Maður er ekki alltaf upplagður til að lesa íslendingasögurnar og handavinna var ekki inni í myndinni á þessum tíma. Enda of óframfærin til að senda móðursystirina í búð að kaupa garna og handavinnublað þó hugmyndin hefði kviknað.
Hékk í Kópavoginum og veslaðist upp af leiðindum. Hafði verið send fáklædd í hasti seint að kvöldi fyrst með sjúkrabíl hundrað kílómetra leið að flugvelli og síðan með flugi í bæinn.
Fór út af spítalanum fjórum dögum seinna á inniskónum (tábandaskór eins og komust í tísku 25 árum seinna).
Ljósmóðir úti á landi, gömu í hettunni og stólpafrek neitaði að taka við tilvonandi móður aftur þó ungliðarnir á Lansanum teldu allt vera í himnalagi og ekkert að því að fara heim og eiga þar. Það frétti ég nú reyndar ekki fyrr en eftir á.
En eftir þessa ferð í Stórmarkaðinn var sjúkrafluttningurinn endurtekin nema nú slepptum við fluginu, þökk sé ljósmóðurinni að það þurfti ekki að reyna að fljúga að austan. Það hefði getað kostað minningargreinaskrif en ekki afmælisblogg núna 25 árum seinna.

Þannig að þennan dag eða öllu heldur þetta kvöld fyrir aldarfjórðungi síðan var undirritaðri demb í svæfingu á Lansanum og kl. 22.06 var dóttirin komin í heiminn eftir nokkur hröð handtök á skurðdeildinni.
Ég hitti hana ekki fyrr en daginn eftir. Lítð kríli með gamalmennaandlit og rauðleitann hárkraga. Hún var ekkert lík því sem ég átti von á og hefur vist ekki verið það síðan.
Fædd eitthvað fyrir tímann og var ekki höfðugróin fyrr en einu og hálfu ári seinna. Braggaðist að vísu fljótt, svo fljótt að ég hefði eflaust verið látin setja hana á megrunarfæði eftir nokkrar vikur ef það hefði bara verið hægt að láta mig framleiða undnrennu. Rauðleit hárkraginn varð ennþá rauðari, óx svo saman upp á hvirflinum og um leið og hún hafði vit á vildi hún láta klippa það sítt og eftir að hún var farin að sjá sjálf um hárhirðinguna náði lubbinn niður í mitti nokkur ár.
Merkilegt með kvennþjóðina að þurfa alltaf að prófa að safna hári. Hársárar jafnt sem aðrar.
Rauðu hári eiga að fylgja miklir skapsmunir og ég ætlaði að fara að segja að mér hefði aldrei fundist bera á því hjá afmælisbarninu. En mundi þá eftir því þegar hún pakkaði niður í tösku og lagði á stað með töskuna út úr húsi, „farin til ömmu“ „flutt“. Oftar en einusinni. Man eftir tveggja eða þriggja ára kríli að ráðast á frænda sinn sem var 192 cm á hæð þegar henni blöskraði stríðnin i honum. Reyndi að bíta hann í fæturnar frekar en ekkert. Man eftir ótal dæmum um hlátur og grátur. Man eftir því að vakna einn morguninn eftir næturvakt við að fá ískalt kríli öðrum skónum upp í rúm til mín. Það var daginn sem hún labbaði heim af leikskólanum fjögura ára gömul af því hún smeygði sér út um dyrnar til að horfa eftir pabba og enginn heyrði þegar hún bankaði og vildi komast inn aftur. Hún rataði heim þó hún hefði aldrei farið það nema í bíl og sem betur fer er óþarfi að sofa fyrir læstum dyrum í plássum úti á landi.
Þegar á skólaaldurinn kom minnti hún á lítinn feiminn hvolp í skólanum og kennarar höfðu aldrei neitt  að segja um hana þar, af því hún gerði allt sem hún átti að gera og gerði það vel. Mér fannst nú samt hún ekki sýna allar sínar hliðar þar.

Hennar aðferð við að læra að hjóla er það sem mér finnst alltaf lýsa henni best

Það var sumar og dóttir mín að verða sex ára gömul var búin að ákveða að læra að hjóla. Malarvegur, hjólið stórt og erfitt.
Hún kom inn grátandi og öskureið með skrámuð hné, tók út reiðina á mömmu sinni, lét huggast bara til að fara út aftur til að detta meira. Þegar ég benti henni á að hætta nú þessu var hvæst á mig að hún ,,ÆTLAÐI að læra að hjóla".
Eftir ótal svona ferðir var það hamingjusamur lítill rauðhaus skrámaður og hruflaður sem kom inn þennan dag og sagðist vera búin að læra að hjóla.

Síðan þá hef ég aldrei efast um að henni takist það sem hún ætlar sér. Er samt ekki viss um að hún átti sig alltaf á því sjálf.


1 ummæli:

Hafrún sagði...

Takk, takk. Vandaði vel til hennar en fékk eins og svo oft síðan eitthvað allt annað úr uppskriftinni en var lagt af stað með.