Vaknaði í morgun og mundi ennþá loforðin mín um nýtt og betra líf sem voru gefin eftir mikið sælgætisát yfir videoinu kvöldið áður.
Fór í Baðhúsið og í suðræna sveiflu. Leikfimitíma með dansívafi, það var fátt í morugn amk. miðað við það sem var yfirleitt í tímunum í fyrravetur svo fátt að það stóð enginn fyrir framan mig annar en leikfimi-dans-þjálfarinn með speglavegginn á bak við sig.
Við töldum 1.2.3 1.2.3 tilltum og lyftum í takt við músíkina eða áttum að gera það. Eftir að hafa stundað þessa tíma nokkuð reglulega allan síðasta vetur er ég farin að ná að telja upp í þrjá. Og stundum næ ég þvi lika að það er þarna músík sem á talningin á víst að fylgja, ekki öfugt.
Einhverntima í þessu leikfimi-dansveseni öllu saman áttaði ég mig á því að fótahreyfingunum á líka að fylgja mjaðmasveifla og henni á að fylgja sveifla á höndum líka. Tók eftir því að þetta gerði þjálfarinn, steig sporin, sveiflaði mjöðmum og höndum í takt við músíkina eins og hún væri á kjötkveðjuhátíð í Buenos Aires.
Af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum fór talningin mín út um þúfur um leið og ég reyndi að setja góða mjaðmasveiflu með sporunum og þegar ég gerði örvæntingarfulla tilraun til að sveifla höndunum til viðbótar við allt hitt áttaði ég mig á að allir aðrir í salnum voru búinir að snúa sér í hálfhring og sneru baki í mig. ,,Hverju missti ég af" spurði ég sjálfa mig og reyndi að finna einhvern takt en áttaði mig þá að restin af hópnum var búin að klára snúninginn og enn sneri ég öfugt.
Fæturnir fundu loksins taktinn sem aðrir voru greinilega að fylgja þarna inni og eftir að hafa dregið andann djúpt nokkrum sinnum var ég farin að ná að heyra líka.
Var ég búin að minnast á spegilinn? Staðsettur á heilum vegg beint fyrir framan mig og með þvi að ég þurfti ekki lengur að telja í hverja hreyfingu gat ég litið upp og fylgst með árangri erfiðis míns. Yndisþokki og suðræn sveifla eru ekki orð sem ég myndi nota um árangurinn og eftir nokkrar vangaveltur er ég nokkuð viss um að fæturnir voru í salsa, mjaðmir í tangó og hendurnar í fugladansinum.
Ekki nema von að ég svitni í þessum tímum!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli