14. október 2004

Lesskilningur

Er búin að sjá að lesskilningurinn minn er ekki upp á marga fiska. Er margbúin að sjá í póstinum mínum ,,miðvikudaginn 20.okt" en ákvað samt að það sem ég ætlaði að fara að gera væri miðvikudaginn í gær. Það var bara 13. en hvað með það. Mér hentaði að lesa það en ekki að ég væri að lesa um eitthvað sem ætti að vera eftir viku. Þannig er nú það. Bull.
Svo ég átti óráðstafaða kvöldstund í gær svo ég fór í heimsókn og horfði á Bráðavaktina og fór svo að leika tölvukunnáttumann. Gaman að koma svona þar sem fólk kann lítið meira á tölvu en að kveikja á henni og ræsa ritvinnsluforrit og skoða vefsíður. Þá virka ég eins og tölvugúrú þegar ég downloda forritum til að eyða spyforritum og læt þau skanna tölvuna hjá viðkomandi. Það versnar i hlutunum þegar ég ræð ekki við vandamálið og þarf að fara með tölvuna undir handleggnum til Tölvunarfræðingsins og biðja hana að skoða þetta aðeins fyrir hann móðurbróðir sinn sem er handviss um að gestir og gangandi séu búinir að eyðileggja græjuna fyrir honum og hann var bara að ,,borga síðustu afborgun og tölvan bara ónýt"
Enn versnaði í málum þegar aðgerðir Töluvnarfræðingsins og vinnufélaga duga ekki til og netið frýs jafn mikið og áður. Af því ég þoli ekki spyforrit sem fara svona með tölvur hjá blásaklausum notendum Internetsins sat ég lengi yfir veikri tölvunni í gærkvöldi og þrjóskaðist við að henda út einhverju sem kom jafnóðum aftur. Fiktið í mér skilar svo sem engum árangri öðrum en þvi að ég læri pínulítið í hverri svona syrpu.
Og talandi um að læra þá er skóli í kvöld og ég hlakka ekkert smá til. Nei annars ég hlakka ekki til að sitja þarna þó námsefnið sé bara þokkalega skemmtilegt.
Og ÉG kvíð ekki fyrir Londonferðinni. Ekki strax allavega við hljótum að bjarga okkur á milli, er reyndar strax farin að skoða hvort við eigum ekki bara að taka rútu frá Stansted eitthvað annað en til London. Finnum okkur einhverja rútu og hoppum upp í og sjáum hvar við lendum. Það hlýtur að vera hægt að finna gistingu allstaðar. Og tvær miðaldra (ein allavega, Ella er svo ung ennþá) konur talandi lélega ensku á flakki um Bretland þvert og endilangt um hávetur! Hljómar það ekki spennandi. Getum svo auðvitað tekið lestina til Parísar. Verst með bókabúðirnar þar, ég sá ekkert í þeim sem ég gat lesið hérna um árið. Endaði með þvi að kaupa barnabók með fallegum myndum og ítölskum texta í fornbókabúð til að eiga mynjagrip.
Jæja best að koma sér í vinnuna. Hef um tvo vinnustaði að velja til að dunda mér á á morgnana og oft stendur valið aðalega um það á hvorum staðnum er betra kaffi. Verst að ég verð víst að fara þangað sem er alltaf búið að hella upp á lapþunnt hálfvolgt kaffi sem ég þarf að setja instantkaffi saman við til að það sé drekkandi. Hef ekki kunnað við að hella niður þessum tveimur lítrum af kaffi sem eru til þegar ég kem til að hella upp á nýtt. Þeim gæti sárnað og þurft að fara að hella vatni í kaffið sem ég bý til, til að þynna það út.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er að reyna að giska á í huganum á hvorum vinnustaðnum kaffið er þunnt, held ég viti það, og ræðst það af upplýsingum um að þeir verði sárir. Held að það verði bara sárir menn á öðrum vinnustaðnum, hinum er trúlega alveg nákvæmlega sama.

Nafnlaus sagði...

Er að reyna að giska á í huganum á hvorum vinnustaðnum kaffið er þunnt, held ég viti það, og ræðst það af upplýsingum um að þeir verði sárir. Held að það verði bara sárir menn á öðrum vinnustaðnum, hinum er trúlega alveg nákvæmlega sama.