Síðasti dagur sumarfríssins rennur upp á morgun. Hafrún er búin að vara þunglynd í dag og áttaði sig á að ástæðan er sennilega sú sem að framan greinir. Nú eða þá helv. kvefið. Búin að vera kvefuð frá því á föstudaginn í síðustu viku og það er sko ekkert gaman. Hóstandi með hálsbólgu og komið sár á nefið af snýtupappír. Svei. Þrælaði mér samt úti við í slætti, tiltekt og vegghleðslu. Vildi samt gjarnan hafa gert meira. Ein aldrei ánægð með afköstin. Hefði þurft eina viku í viðbót. Er eftir að koma upp stillönsunum sem ég fékk lánaða svo það væri hægt að bera í timbrið á húsgöflunum.
Stórfjölskyldumótið sem ég og fleiri blésum til byrjar á morgun. (búið að slá tjaldstæðin) Er að hafa áhyggjur af hreinlætisaðstöðu. Erfitt að vita hvað þarf til þegar maður veit ekki almennilega hvað mæta margir og hvað margir ætla að tjalda. Búið að fá lánað grill en galli fylgir skammrifi, það þarf helst krana til að koma því í kerru eða á bíl. Svei ég nenni þessu ekki suma daga. Allt í lagi að vesenast í þessu aðra stundina en fæ fýluköst hina yfir því hvað aðrir ,,nefndarmenn" hafa litlar áhyggjur af því að það þurfi einhverja aðstöðu aðra en klósettið og eldhúsið hjá mömmu!
(Kannast einhver við söguna af Mörtu og Maríu, þessa í Nýja textamentinu)
Á auðvitað að vera jafn kærulaus og aðrir og benda fólki á fjöruna og bæjarlækinn það getur fundið út hvað er rétt að nota hvorn stað. Bara að vona að allir noti bæjarlækinn til að ná í drykkjarvatn, það gæti orðið svolítið vandræðalegt ef hann væri notaður sitt á hvað og líka ef fólk ætlaði að ná í kaffivatnið niður í fjöru.
Þessa stundina er ég ákveðin í að hætta að velta mér upp úr vandamálunum sem þarf að leysa fyrir þessa ,,örútihátíð" mína og skemmta mér bara í hlöðupartýi á laugardagskvöld. Verst að hér kom þoka í dag og súld í kvöld og ég sem var að þurka hey til að setja í hlöðuna til að fá alvöru hlöðulykt og stemmingu. En kannski verður þurkur á morgun og ég kem fáeinum stráum inn.
Er með verk í eyranu, hellu og heyrnarlaus. Er ég ekki orðin of gömul fyrir eyrnabólgu????? Ef ég verð svona á morgun hringi ég í vinnuna og tilkynni veikindi í orlofi.
Fékk upphringingu úr einni vinnunni minni í dag (þýðir ekki að tilkynna veikindi þangarð!!!) Búið að eyðileggja (vonandi eru þetta ýkjur) vinnutölvuna mína. Hefði átt að læsa hana inni í skáp áður en ég fór í fríið.
Nenni ekki að fara í bæinn á sunnudag. (mikið ofsalega er ég jákvæð núna) Var boðin vinna við skálavörslu í Landmannalaugum í tvær vikur en varð að afþakka. Grátklökk sagðist ég ekki koma því við vegna 1) kvefpestar. 2) loforða um að gera eitthvað af mér fyrir niðjakaffið fræga. 3) átt ekki gott með að framlengja sumarfíinu. Er enn með tárin í augunum af sjálfsvorun yfir að geta ekki látið þetta eftir mér.
Annars er búið að vera sumar og sól þessa viku, fjörðurinn sýnt sína fallegustu hliðar og speglað fjöllin kvöld eftir kvöld. Letin í mér að nenna ekki á sjó eins og einu sinni.
Kannski bæti ég úr því áður en ég fer.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli