11. júlí 2004

Ofnæmi og Landmannalaugar

Fékk lyfseðil við malbiksofnæmi. Hann hljóðaði upp á brottför úr bænum í snarhasti svo ég dreif mig í Landmannalaugar á laugardaginn. Bauð mínum Passat og einni vinkonu í bíltúr og brunuðum inneftir.
Lentum í vandræðum með að lesa út úr kortum og ekki ennþá alveg búinar að ná því hvort skálinn snýri í norður suður eða austur vestur. Áttum reyndar engin almennileg kort af svæðinu og gekk illa að átta okkur á hvaða fjöll hétu hvað. Fundum nú samt það sem við héldum að væri Brennisteinsalda og þekktum Bláhnúkinn auðveldlega en treysti mér ekki til að labba upp á hann. Virðist reyndar hver hálfónýt eftir labbið í sumar. Ætla mér auðvitað að vera í afneitun á því að ég þoli ekki langar göngur og ganga samt. Seinna.

Kíkti ofan í Stóra Víti eða Ljótapoll eins og hann heitir víst í dag og einhvern annan poll sem ég veit ekki hvað heitir en er samskonar sprengigígur og Stóra Víti bara minni.
Paufaðist hálfhring um Laugahraunið og dáðist að bíksvörtu líparítinu í því, klöngraðist inn í það til að blöskrast á hvað fólk treður óþarfa slóðir um allt og eyðileggur viðkvæman gróður sem er í áratugi að vaxa í þessu tilfelli nokkur hundruð ár þar sem Laugahraunið rann 1477. ( Þetta man ég frá því í vor! Eitthvað situr þá eftir í kollinum suma daga!) Held auðvitað að mínir gönguskór skilji eftir sig minni eyðileggingu en annara, eða þannig.
Er búin að skoða báða endana á Laugaveginum svokallaða. Skoðaði Landmannalaugaendann af honum núna og Þórsmerkurendann um síðustu helgi. Veit ekki hvort ég skoða nokkurntíma meira en það. Get allavega sagt núna að; jú ég hafi aðeins komið inn á Laugaveginn.
Grandskoðaði gróðurinn á svæðinu og fletti upp jarðfræðilyklinum og plöntuhandbókinni. Notaði mér það að vera á eigin bíl og þurfa ekki að bera farangurinn langt og hafði með mér helling af óþarfa eins og bækur og teikniblokkir sem ég auðvitað tók aldrei upp en það var ekki fyrir neinum heldur.
Gistum í skálanum eina nótt og verð að viðurkenna að ég svaf ekki sérlega vel. Þarf að aðlagast því að sofa í margmenni og það tekur amk. eina nótt. Hefði sem sagt þurft að vera tvær og hefði þá sofið vel seinni nóttina.
Ofnæmið er semsagt í einhverri rénun eftir helgina en óvíst hvað þetta dugir lengi. Er að sjá möguleika í því að fá lánað lítið tjald og fara með minn svefnpoka og dínu og LÍTIÐ nesti af stað út í bláinn og gista þar sem hægt er að koma tjaldi fyrir.
Geta þá labbað það sem ég treysti mér til og kemst án þess að blanda öðrum í málið og farið og komið þegar mér hentar. Miðið er möguleiki eins og einhver auglýsir og kannski kem ég þessu í verk einhverntíma. Kannski ekki á þessu sumri en hver veit.
Stundum er það svo flókið að vilja hafa einhvern með sér. Ég kemst þegar mér dettur í hug. Þarf bara að biðja köttinn um að fara vel með sig og kannski biðja dóttirina um að fóðra hann og svo hleyp ég út en vinkonurnar þurfa að gera þvílíkar ráðstafanir og alltaf verða einhverjir árekstrar við aðrar áætlanir og annað fólk, jafnvel jarðflekaárekstrar og ég kemst að því að allar væntingar um að eyða tíma með öðrum fara í vaskinn og það er auðveldast að komast að málamiðlun við sjálfan sig.
Svo lífið er ljúft og Landmannalaugar litskrúðugar. :-)



http://www.norvol.hi.is/~fredrik/landmannalaugar.htm
http://www1.bos.nl/~dvuijk/lands/landmannalaugar_list.html