Þetta var að mestu leiti gott ár, langt sumar með miklu af mold sem ég gat troðið fingrunum í í tíma og ótíma. Frá moldinni í grænmetisgarðinum var steinsnar í fjöruna þar sem æðarfuglinn hreiðraði sig í húsunum sem ég hróflaði upp fyrir hann og þegar leið á sumarið lónaði hann með landi og kvakaði eftir æti ef hann sá til mannaferða með sjónum. Ofdekraðir æðarfuglar sem fylgja manni eftir á gönguferðum eiga það til að planta samviskubiti í sálartetrið þegar brauðið verður eftir heima en það er með þá eins og börni, maður má ekki láta allt eftir þeim.
Skálavarsla á fjöllum er ómissandi hluti af sumrinu og þó veðrið væri ekki alltaf upp á það besta frekar en gestirnir átti ég samt góða daga og þarf auðvitað að fara aftur. Ég á ókláraðann göngustíg milli skála og salerna. Það er eitthvað heillandi við grjóthleðslur, ef einhver tæki að sér grjótaðdrætti fyrir mig gæti ég eytt dögum og vikum í að hlaða veggi og búa til stíga. Eins og bakið þolir auðvitað.
Skólinn og barnabarnið voru á sínum stað þegar ég mætti til leiks í bæinn í september. Drengurinn nógu stór til að leika við hann og kenna honum ósiði, hann á erfitt með að sitja kyrr og ég bind vonair við að hann verði liðtækur smali þegar hann stækkar. Ég ætlaði mér um of í náminu, ímyndaði mér um tíma að ég gæti klárað 40 einingar, bara af því mig langaði til að taka svo mikið af skemmtilegum námskeiðum. Ég sá að mér í tíma en þó full seint og það sást á afköstum, bæði í vinnu og á leiðinda skyldunámskeiði sem ég þurfti að klára. Eitt sjúkrapróf í janúar og þá verða 170 einingar búnar
. Ein BA ritgerði eftir og útskrift í júní. Auðvitað ætla ég að skrá mig í meistaranám en ég lofa sjálfri mér þó að taka aldrei framar fullt nám með vinnu. Sjálfrar mín vegna og vinnunar ætla ég að vona að ég gleymi mér ekki í hringiðu námsgleðinnar þegar kemur að því að velja úr spennandi námskeiðum.
Forskot á sumarið, sólskin, logn og morgunkaffi á bryggjunni. |
Þar sem þetta vex villt á skógarbotninum kann ég vel við mig. |
Á örættarmóti var langalangafi ekki langt undan. |
Já, það er annars best að bæta við því þriðja, að vera duglegri með myndavélina og myndvinnsluna en ég hef verið undanfarna mánuði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli