29. október 2012

Ofreynsla og ofkæling

Þegar saman fara ofreynsla og ofkæling (ekkert þó sem góð sturta lagaði ekki) vill verða lítið úr deginum. Ég hugga mig þó við að blessaður síminn minn varð mér samferða niður úr Esjunni í dag en það gerði hann ekki í gær. 
Ég fór sem sagt í góðan göngutúr seinnipartinn í gær og þræddi Esjuhlíðar utan göngustíga í tæpa tvo tíma. Það var svo sem ágætis fjallganga en rúmlega þriggja tíma ganga upp og niður, út og suður um svipaðar slóðir var full mikið af því góða í morgun. En þó heilsan sé ekki beysnari en þetta fann ég símann fyrir rest, já svo rétt eftir að ég gafst upp á að leita og lötraði af stað heim. 
Annars efast ég um að ég hefði enst svona lengi á röltinu ef  ég hefði ekki haft bók að hlusta á og nú get ég líka þakkað símamissinum að ég er loksins búin að hlusta á Gamlingjann. Gallinn við hljóðbækur er nefnilega sá að það tekur allt að 16 tíma að hlusta á efni sem ég gæti lesið á 4 til 5 og með því að hlusta í strætó á leið í skólann á morgnana er ég eilífðartíma að klára meðal bók. Sérstaklega af því ég er ekki nema þrjá daga í viku í skólanum. 

Myndin kemur efni þessa pistils ekkert við,
hún er bara uppbótarefni.
Nýkláraður Gamlinginn er ágætis lesning og eiginlega mun fyndnari en ég átti von á. Það fór ekkert fram hjá mér á sínum tíma að þetta væri metsölubók og þótti góð en eins og svo oft áður átti ég erfitt með að taka upp metsölubók til að lesa. Þetta er einhver mótþróaþrjóskuröskun sem þjakar mig þegar þær eru annars vegar, ég þarf að bíða meðan aðdánunaröldurnar lægja og lesa svo bækurnar laus undan áhrifum frá þeim. Gamlinginn minnir mig á sambræðing úr Forest Gump (þó ég hafi ekki séð hana, ég hef bara séð brot, umtal og dóma) og Góða dátanum. Forest Gump hitti margar nafntoguðustu persónur mannkynssögunnar eins og Gamlinginn en Góði dátinn hafði yfir svipaðri hugarró að ráða og báðir eru þar að auki sagnamenn. Svejk er nú samt fyndnari. 




Engin ummæli: