Samkvæmt mínum útreikningum er fimmtugasti og annar dagur ársins 2011 og enn skrái ég gönguferðirnar mínar samviskusamlega niður. Með nokkura daga millibili reyndar.
Ég leyfi mér að telja röltið mitt fram og til baka á stéttinni fyrir framan LHÍ til gönguferðar enda var það heilmikil ganga miðað við líkamlegt ástand göngumannsins.
Síðan ég útskrifaðist hefur mér tekist að hreyfa mig aðeins meira en þetta en flesta daga hef ég haft vit á að sniða mér stakk eftir vexti og rölta fram og til baka með sjónum í 10 mínútur. Í kvöld var háflóð og stjörnubjart svo ég gekk meira og minna með hnakkann keyrðan aftur á bak, starandi eftir kunnuglegum stjörnum á himni.
Ég ætla að heita á sjálfa mig að lengja göngutúrinn og jafnvel koma mér út af malbikinu smá stund daginn sem ég losna við drenin. Plastpokar og slöngur, sem ég að vísu treð ofan í tösku, eru ekki þægilegir ferðafélagar en ég verð að sætta mig við dótið þar til mér tekst að minnka framleiðslu á líkamsvessum úr sárunum. Ég reyni að bera mig mannalega þegar hjúkkurnar koma til að tæma og mæla á morgnana og tilkynna mér að enn sé of mikið í pokunum. Samt er ég orðin svolítið langeygð eftir að losna við draslið en þá er að rifja upp æðruleysisbænina.
Það eru fleiri að fást við þennan sjúkdóm og það hefur satt best að segja verið ómetanlegt að geta lesið sér til um ferlið hér á blogginu hennar Sigrúnar. Þó meðferð sé alltaf einstaklingsbundin eru aðalatriðin þau sömu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli