24. janúar 2015

...vara sandr né sær né svalar unnir,

Á leslistanum mínum fyrir árið 2015 er skráður þríleikur eða saga í þremur bindum.  (Hvenær varð þetta orð þríleikur til sem lýsing á sögu í þremur bindum? Er til tvíleikur og fjórleikur í sömu merkingu?) Þar err lýst veröld fólks sem bjó í samfélagsfylkjum sem lögðu áherslu á ákveðna eiginleika. Bersögli lagði allt upp úr hreinskilni, Ósérplægni á sjálfsafneitun, Hugprýði á hugrekki og svo framvegis. Þolinmæði var ekki eitt af fylkjunum  en mér líður þessa dagana svolítið eins og ég þurfi að koma upp þannig fylki hér á heimlinu.
Fylkið það yrði auðvitað frekar fámennt, bara ég og tveir kettir, það yrði þá nokkurs konar þríleikur, annar kötturinn er reyndar afspyrnu þolinmóður og rekur bara annað slagið upp væl þegar hann kemst ekki út, ekki þó nema hann sjái til mannaferða. Hans veikleiki er lykt af soðnum fiski, og stundum kjúklingi, og þegar þannig angan berst um húsið þarf ég að taka kauða og loka hann inni í herbergi. Þar bíður hann reyndar þolinmóður þar til ég man eftir að hleypa honum út.
Hitt dýrið veit ekki hvað þolinmæði er heldur krefst réttar síns af mikilli heift þegar þannig ber undir. Það á að dropa úr krananum í baðkarinu því þar drekkur hann sitt vatn og það á að vera matur í matarílátum þegar honum hentar. Þá á ekki að loka svefnherbergisdyrum á nóttunni ef honum skyldi hugnast að koma inn til að horfa út um gluggann eða hringa sig á kodda og ef ekki er orðið strax við kurteislega orðaðri beiðni breytist hún í háværan kraftmikinn einsöng með tilheyrandi krafsi og klóri í svefnherbergishurðina.
 Ég sjálf er að þjálfa mína þolinmæði gagnvart  einum kennara Háskóla Íslands  sem hefur nú 17 dögum  eftir próf ekki skilað af sér einkunum. Ég er alla jafnan hlynt því að gefa mönnum vinnufrið og æfa bara djúpöndun meðan þeir vinna sína vinnu  en nú á ég orðið svolítið erfitt með að ná andanum. Fyrir það fyrsta veldur nám mitt á vorönn á því hvernig þetta próf fór, náði ég eða féll. Ef ég náði er ég komin með 170 eininar á námsferlinum og á bara eftir að skrifa lokaverkefni. Ef ég féll, og mér gekk ekki sérlega vel í prófinu, þarf ég að taka eitt námskeið til viðbótar á vorönn, og ekki hvaða námskeið sem er, það þarf að vera þetta eina sem eftir er af námskeiðum í bundnu vali. Kennsla er auðvitað löngu byrjuð og ef ég ætla að byrja að læra fornamálið núna þarf ég að taka hraustlega á því. Svo var auðvitað þetta með að ætla að vera austur á landi meðan ég skrifaði lokaverkefnið - fornamálið er ekki kennt í fjarnámi. 
Til öryggis skráði ég mig í þetta blessaða námskeið daginn sem fresturinn á að endurskoða námskeiðsskráningu rann út, ég get skráði mig úr því aftur til 1. febrúar. Ég mæti þó ekki í tíma eða lít á námsefni meðan ég lifi í óvissu heldur pakka niður og gegn frá í íbúðinni sem er að fara í leigu eftir nokkra daga. 
Þolinmæði já, ég ætla að æfa mig í henni áfram og bíta á jaxlinn í nokkra daga enn áður en ég hringi í HÍ og græt fögrum tárum yfir óréttlæti heimsins.
Kafli tvö í þessari sögu er svo um námslán en ég nenni ekki að hafa hann langan. Ég bara með 20 einingar staðnar fyrir haustönn og þar af leiðandi engin námslán, ef ég fell í þriðja námskeiðinu fæ ég auðvitað ekki krónu en hverjum liggur á að vita svoleiðis smámuni? 

Ég eignaðist í vetur Eddukvæði í útgáfu Fornritafélagsins og þyrfti að fara að losna út úr óvissu ljúka af flutningum til að geta farið að lesa þau í ró og næði samhliða vinnu við lokritgerð. 


Engin ummæli: