17. mars 2012

Gagnalaust líf

Gagnalaust líf er að sjálfsögðu ekki gagnlaust en eitthvað er ég nú ósjálfbjarga þegar tölvan mín neitar að þýðast mig.

Ég var samt svo heppin að sonurinn geymir fartölvuna sína hjá mér og ég get unnið á hana, það eina sem mig vantar eru gögnin sem ég geymi á minni tölvu og uppsetninguna á bókhaldstengingunni svo ég geti unnið. Því get ég ekki bjargað fyrr en á mánudag en bókhaldið er vistað úti í bæ svo þar eru engin gögn í hættu. Það er virkilega skynsamlegt fyrirkomulag.

Ég lifi lykilorðalífi svona dags daglega og eins og sönnum skipulagssnillingi sæmir eru öll lykilorðin mín geymd og skilmerkilega listuð í excelskjali. Í því eru ýmis lykilorð fyrir marga aðila, aðgangsorð og lykilorð á ótal síður hjá aðilum sem krefjast innskráningar einstaklinga og fyrirtækja.  Já þetta er langur listi og það er líka ótrúlega mikið sem ég man af því sem hann geymir en ekki allt og nú pirrar það míg ískyggilega.

Auðvitað er ég ekki svo græn að prenta ekki út listann minn en ég man ekkert í hvaða möppu hann er og nenni ekki að leita að honum  en ætli ég verði samt ekki að eyða tíma í það. Ég er heldur ekki svo slæm að hafa ekki tekið afrit af ýmsum gögnum á tölvunni en nýjustu afrit eru auðvitað af því sem mestu máli skiptir, það eru myndirnar mínar. Annað hefur ekki verið afritað nýlega. Þess vegna vantar mig ýmislegt smávægilegt eins og ritgerðaruppkast með nýjustu breytingum og verkefni, greinar og ýmislegt annað sem varðar skólann og svo auðvitað tölvupósturinn.  Og forritin mín!


Þegar ég leit út áf föstudagsmorgun var ég ánægð með afköst fimmtudagsins, þau fólust í að sitja í hádegishléinu mínau skólanum til að sleikja sólskinið í lognpytti við íþróttahús HÍ. Sum tækifæri á maður ekki að láta fram hjá sér fara.

Engin ummæli: