21. ágúst 2011

Leiðist

Eiginlega leiðist mér! Mig langaði í bæinn í dag en hafði ekki orku í að fara. Mig langaði að sjá flugeldasýningu í kvöld, já og fara á tónleika en hafði auðvitað ekki krafta i það heldur. Í staðin hangi ég í tölvu.
Það er svo sem margt verra en að hanga i tölvu og æfa fingrafimi og rifja upp orð og hugtök eins og megindleg og eigindleg rannsókn. Ég tek eftir því þegar ég reyni að skrifa eitthvað, annað en daglegt bull um hvað ég á bágt, að mörg þau orð sem ég veit að eru þarna inni einhverstaðar finnast ekki. Það pirrar mig.
Þetta er eins og að leita að hlutum sem mann bráðvantar og veit að liggja einhverstaðar í húsinu en ekkert finnst. Kannist þið við tilfinninguna?
Síðasti Taxotere pokinn 
með nafninu mínu. 
Vonandi til lífstíðar en maður
getur víst aldrei verið viss.
Ég ætla ekki að velta mér 
upp úr tölfræðinni núna. 




Þá á meðan ég man, ég fékk síðustu lyfjagjöf af frumudrepandi krabbameinslyfjum á mánduaginn. Það var sko alveg tilefni til að fagna því og ég fékk ofvirknikast meðan á inndælingunni stóð. Sendi sms í allar áttir og sagði fólki að nú væri tilefni til að fagna.Sumir svöruðu mér áður en síminn varð rafmagnslaus, þau sms sem ég fékk eftir að slokknaði á gripnum komust ekki til mín fyrr en tveimur dögum eftir að ég kveikti á honum aftur.

Mér finnst ekkert sniðugt að fá tveggja til þriggja daga gömul skilaboð.


Útsýnið úr stólnum mínum.
Mikið rosalega var ég ánægð 
með að fá hjúkkuna mína úr
sumarfríinu. 


Við fórum nokkur og fengum okkur sushi í tilefni lokadagsins. Ég er farin að kunna að meta þess háttar mat og bíð eftir að dóttirin læri sushi eldamennsku og fari að elda heima.

Það er orðið skemmtilegt mannlífið og fyrirtækjaflóran í gömlu húsunum við Reykjavíkurhöfn. Til skamms tima var ekkert þarna nema Sægreifinn.

Þegar ég fer að hressast aftur langar mig í humarsúpu á Sægreifanum.
Frosnir gelhanskar draga úr hættunni á
að maður missi neglurnar en þeir eru 
ekki mjög notalegir. Samt bað ég um aðra
kaldari þegar þessir voru orðnir volgir. 
Hvítar og sprungnar neglur eru óspennandi

Engin ummæli: