8. júlí 2009

Fjallkonuvörtur

Ég hef verið í krossferð undanfarin ár. Ja, það mætti kannski segja að ég væri búin að vera í fleiri en einni krossferð í mörg ár. Ein snýst um lúpínur og önnur um vörturnar á Fjallkonunni, báðar eiga það sameiginlegt að minna á baráttuna hans Don Quijote. Stundum tekst mér að fá fleiri til að sjá ljósið og ráðast á vindmyllurnar. Ef ég held áfram að benda fólki á þær tekst mér kannski að safna heilli herdeild til að berjast við þær.
Þessi færsla er bara um vörturnar og bara sett hér inn af því einn ferðafélaginn tók myndir af mér og Láru við að fjarlægja eina tilbúnu vörtuna af Fjallkonunni.
Það sem ég kalla vörtur eru grjóthrúgurnar sem ferðafólk í einhverju hugsunarleysi hrúgar upp hér og þar um landið. Sumir hlaða vörður en flestir henda steini í ólögulegar hrúgur sem hafa smátt og smátt myndast hér og þar við gönguleiðir.
Ég er ekki viss um tilganginn með þessu en hef grun um að fólk haldi að það sé gamall og þjóðlegur siður að henda steini í hrúgu til heilla þar sem leið þess liggur um.
Þegar farið er yfir Mýrdalssandinn kemur fólk að Laufskálavörðu en þar er haldið í þann forna sið að leggja stein í vörðuna áður en farið er á sandinn. Ég hef heyrt að það hafi eingöngu verið þeir sem voru að fara í sína fyrstu ferð á sandinn sem gerðu þetta en ekki að fólk henti steinum í vörðu þar í hverri ferð.
Á Bláfellshálsi er svo grjóthrúga, kölluð Beinakerling sem þjóðsaga hefur myndast um en uppruni hennar er reyndar allt annar en Laufskálavörðu og á Ferli.is er fróðleg grein um vörður og vörðu hleðslur en þar stendur um þessa tilteknu grjóthrúgu ,,Staðreyndin um vörðuna á Bláfellshálsi er hins vegar sú að upphaf hennar má rekja til þess að Eiríkur Þorsteinsson frá Fellskoti var að smala á hálsinum á sjöunda áratug 20. aldar þegar gat kom á annað stígvélið hans. Hann skildi stígvélið þar eftir, en hróflaði áður grjóthrúgu yfir það. Síðan sáu ferðalangar, sem að komu, vörðuna á hálsinum, sem er táknrænn áfangi á leiðinni, og bættu um betur, minnugir sögninni um heillamerki."

Sennilega hefur göngufólk tekið í sig að best sé að henda grjóti í hrúgu til heilla hvar sem það gengur og þess sjást vel merki við göngustígana í Esjunni. Skyldu þeir sem ganga Esjuna oft í viku hafa velt því fyrir sér hvernig Esjan þetta uppáhalds fjall margra liti út í dag ef svona ,,fjallamennska" hefði verið stunduð í marga áratugi og hvernig Esjan, Búrfellsgjaáin og fleiri vinsælar gönguleiðir komi til með að líta út eftir 50 ár með þessu áframhaldi.
Í Búrfellsgjánni hef ég séð amk þrjár svona hrúgur og allir sem hafa lagt leið sína upp í Esjuna vita hversu stórar og margar hrúgurnar eru þar-vörturnar.

Norðan við Landmannalaugar stendur Kirkjufell og við það er fallegt friðsælt vatn, Kirkjufellsvatn sem gott er að á við á fallegum sumardegi en því miður voru ferðamenn byrjaðir að hrúga upp þarna grjóthrúgu sem var til lýta á landslaginu og átti ekkert skylt við þá fornu hefð að hlaða vörður vegfarendum til leiðsagnar eða sem kennimerki. Við fjarlægðum hana.


Þessi árátta minnir mig mest á þá hefð hunda að lyfta upp fæti og merkja sér svæði sem gengið er um.

Trausti á myndirnar og ég linkaði á þær án leyfis.

Engin ummæli: