Að morgni Pálmasunnudags áttað ég mig á að ég hafði gleymt að taka eyrnatappana upp úr töskunn og að höfðinglegur hani sem þó vantar á allar stélfjaðrir var farin að nálgast bæjarvegginn með sinn tónvísa morgun söng. Lengra frá glugganum heyrð ég annan taka undir með lægri rödd og örstuttu seinna heyrðist þriðja röddin gripa sama stefið og tóna það með sínu lagi og ég fór að reyna að rifja upp hvað þeir væru aftur margir þessir haugsöngvarar við fjörðinn langa. Ég var ekki komin langt í þeim hugleiðingum og þegar hást og rámt gaaaaurrggó heyrðist í fjarska. Og aftur, og aftur. Við þessar endurtekningar náði ég að greina hljóðið eins og þeir gera í CSI og áttaði mig þá á því að þetta myndi vera hani með barkabólgu eða ónýt raddbönd. Nema? Já nema þetta væri afkvæmi einhvers hrafnsins sem hefur átt leið hjá og sloppið við haglaskot heima við bæ. Samt finnst mér þetta ekki líklegt við nánari umhugsun, ég hef aldrei séð að hrafnar hafi nokkra náttúru til hænsnanna á bænum. Og skiptir þá ekki máli hvort þær eru af íslenskum landnámshænsnaaðli með eða án körfukambs, hvítir ítalir eða brúnir harðduglegir innflytjendurnir sem eru í miklum metum á mínum bæ vegna sjálfsbjargarviðleitni og harðgerðis. Sennileg er krunkandi haninn bara með sködduð raddbönd.
Þegar kvartettinn hafið komið öllum á fætur, hænum og fólki hefst annar kafli fuglalífs á bænum. Með lægri tónum en stöðugu rappi tjá endurnar sem eru búnar að vera lokaðar inni í andagirðingunni yfir nóttina að það gæti verið gaman að fara að spássera um brekkur og tún. Kíkja í fjöruna og athuga hvort einhver lífræn ræktun er það á matseðlinum í dag. Úa, borubrött æðarkolla hefur sig til flugs beint upp af pollinum enda ólík fósturfjölskyldunni með sinn létta granna brúnfjaðraða búk og lætur engar girðingar loka sig af. Hún er á tjörninni vegna þess að hún velur það sjálf og hún verpti eggjunum innan girðingar af því hún valdi það sjálf á síðast ári. Eitt ræður þó þessi sjálfstæði einstæðingur sem ráfaði upp á tún viltur og vesæll lítill dúnhnoðir fyrir nokkrum árum og var komið í skjól hjá aliöndunum sem tóku hanan í hópinn eins og ekkert væri sjálfsagðara. Hún beitti allri sinni lagni og lipurð við að koma andastegg hópsins til við sig síðasta vor en herra andasteggur hefur bara náttúru til anda og Úa litla varð að sætta sig við að verpa sínum ófrjóu eggjum í hreiðrið.
Gógógógaggalagó, gogoog, googoog í lægri tóntegund, brabrabrrrabbr, brubbr grabbrrabbr heyirst í síþvaðrandi hópnum frá sólarupprás til sólarlags en inn á milli heyrist í hinu fósturbarninu sem veit ekki að hann er ekki önd, hann veit bara að ,,hinar" endurnar geta ekki allt sem hann getur og þegar þær segja þrabbrabbþrasþvaðurbrabbþrabb, heyirs frá honum hæglátt, kliðmjúkt Úúúúaaaa úúúaaa. Það væri hljóð sem ég viðldi gjarnan sofna við öll kvöld og vakna við á morgnana. Æðarblikinn skartar svörtu og hvítu með ljósgrænan koll og bleika slikju á bringunni og kveður sinn hugljúfa hugleiðslu söng Úúaaaa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli