7. janúar 2009

Kveðja

Dýr eru ódauðleg þvi þau vita ekki að þau muni deyja. Fyrir þeim er dauði ekki til aðeins enn einn svefninn og þau gera sér ekki grein fyrir því að þau muni ekki vakna af þeim svefni.
Þetta er inntakið í sögunni um pelíkanan sem varð að manni og gerði sér þá fyrst grein fyrir því að hann væri dauðlegur. Þess vegna valdi hann sér að verða aftur að dýri því þá varð hann ódauðlegur. Ég er eftir að lesa þessa bók, ég fékk bara munnlegan úrdrátt úr henni á ferðalagi í óbyggðum fyrir nokkrum árum en mér líkar þessi heimspeki og hún gerir mér lífið bærilegra þegar ég þarf að kveðja fjölskyldumeðlim er er búin að deila með okkur sorg og gleði undanfarin tólf ár.
Það var með hálfum hug að ég ákvað að láta hann fara í aðgerð til að fjarlægja æxli af afturfæti. Æxlið var illkynja og það átti að taka tána af. Aðgerðin var aldrei framkvæmd því hjartað í honum stöðvaðist fljótlega eftir svæfinguna og nú sefur hann svefninum langa.
Það er bara ég sem er aum, lítil, sár og sorgbitin. Ég hefði viljað halda á honum þegar hann sofnaði.
Þegar frá líður kem ég til með að líta svo á að þetta hafi verið góður kostur fyrir hann. Hann er lausi við að lifa fatlaður og verða hrumur og aflóga. Skar.
Fimmtán ár eru hár aldur hjá ketti. Sennilega eru orðin þrjú ár síðan hann hætti að hoppa upp á baðkarsbrúnina til að drekka í baðkarinu. Fyrstu árin sem hann var hjá okkur þurfti að láta dropa úr blöndunartækjunum á baðinu alla daga því hann drakk ekki vatn öðruvísi. Það breyttist. Síðasta síðasta árið var hann hættur að fara niður stigann og síðustu vikur var Flubbinn að tala um að hann þyrfti tröppur til að komast upp í rúmið hennar. Samt fór hann upp kjallarastigann í þremur stökkum ef við héldum á honum niður til að horfa á sjónvarpið með okkur og yfir hátíðirnar var hann glaður og ánægður með bút af blómavír sem var svo liðlegur að þveitast með honum um öll gólf.
Meðan aldraður hefðarkötturinn skautaði fram og aftur á stofugólfinu á eftir boltum og öðru því sem hægt var að leika sér að horfði sá yngri á hneykslaður á látunum. Þessi lífsgleði hans var ástæðan fyrir því að við vildum láta reyna á aðgerðina en útkoman var önnur en við vonuðumst eftir.
Ég held nú svona innst inni að það sé kannski gott að fá að kveðja meðan maður er sæmilega ern og áður en öll lífsgleði er horfin.


Uppáhalds rauðskinnarnir mínir með einn í svarthvítu með.

Rauðhaus, Rauðfeldur og Rauðgrani.
Ef ég skrifa ævintýri um dverga, álfa og tröll nota ég nöfnin þeirra á sögupersónur.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Sit og tárast hérna megin, Elsa sendi slóðina á mig og þú átt alla mína samúð. Knús og kreist á þig og rauðhausana og ég vona að Hnoðri hafi það sem allra best hinu megin. Kveðja Linda.

Hafrún sagði...

Takk Linda.

Nafnlaus sagði...

Æ, er hann farinn, sæti kötturinn sem ég man fyrst eftir upp á eldhússkáp í Ástúninu. Alltaf leiðinlegt að þurfa kveðja góða vini, sendi þér stórt knús.

Gilla