Klukkan 5:20 í morgun heyrði ég krafs í svefnherbergishurðina, þegar ég opnaði stóð þar rautt, raunamætt dýr sem horfði á mig ásökunaraugum sem tjáðu mér að hreinlætisaðstaða þess væri lokuð inni. Eftir leiðréttingu á þessu misrétti sofnaði ég aftur.
Klukkan 6:08 vaknaði ég við krafs í svefnherbergishurðina, þegar ég opnaði stóð gráhvítur ferfætlingur, kviðdreginn mjög og augnaráðið tjáði mér að matardallar væru tómir eftir nágrannana og mér væri fyrir bestu að bæta í þá. Ég gerði það og sofnaði aftur.
Klukkan 6:20 var aftur krafsað og nú benti sá gráhvíti mér á að hans tími fyrir morgungöngur væri kominn en útgönguleiðin væri lokuð. Ég opnaði, skreið upp í aftur og svaf ekki meir þennan morgun.
Eftir hádegi bætti ég úr svefnleysinu og þegar ég vaknaði hafði aðdráttarafl jarðar aukist til muna. Ég held það sé farið að lagast.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli