14. maí 2008

Vorið

Það er komið vor, lóan er komin, krían er komin, æðurinn hreiðrar sig og ég er búin að fara á vortónleika.
Veðrið er ljúft, tónleikarnir ljúfir, ég verð með hnúta í herðunum eftir klappið en er laus við lagið sem ég var með á heilanum þegar ég labbaði út og allan tímann sem ég sat á bæjarlistaverki seltyrninga og horfði á sólina stinga sér niður bak við Snæfellsnesið.
Á miðjum tónleikum fór ég að hugsa um hvað margir ættu bágt að missa af þeim og mundi þá að ég hafði ekki boðið Kennaranemanum miða og Flubbinn hefði sennilega ekki sent tölvupóst á þá vini og vandamenn sem hafa oft verið í áskrift að miðum hjá henni OG verið í áskrift af því þeir hafa notið þess að vera á tónleikum kórsins en ekki til að gera henni greiða og kaupa miða.
Ég hefði alveg verið til í að deila þessu ljúfa kvöldi með öllum sem ég þekki en þið komið bara á næstu vortónleika. Nú eða jólatónleika.
Ég var reyndar á tónleikum hjá Flubbanum þegar hún kláraði söngnámskeiðið í Söngskóla Reykjavíkur í vor. Þar söng hún einsöng og kom mér á óvart , ekki vegna þess að hún syngi ekki jafn vel og ég er vön heldur vegna þess að hún söng með allt annari rödd en ég er vön. Skrítið þegar fólki er rokkar úr sópran í alt eftir því hvar það syngur.

Annars ætlaði ég að skrifa heilmikla ljúfa ritgerð hér inn um hjólatúrinn minn í gær, um Flubbann sem er svo lík pabba sínum að hún þekkir allstaðr fólk sem þarf að tala við og ég hjólaði langleiðina heim á undan henni meðan hún talaði og talaði. Um stokkendurnar á Kópavogstjörninni, grágæsirnar og rauðhöfðaöndina sem svömluðu þar líka og svartan og hvítan kött sem sat í sinunni á tjarnarbakkanum og lét sig dreyma um að vera veiðihetja að sið forfeðra sinna og veiða stóra og stæðilega gæs í kvöldmatinn. Hann dreymir enn.
Um nýopnaða sundlaugina sem ég fór í í gær og á eftir að líta vel út þegar vatnið verður orði tært af sementsrykinu en það er svo sem ekkert að því að hafa sand og möl í botninum á heitupottunum, það er bara nátturulegra.
Ég hjólaði í vinnuna í dag og ætla að sjá til hvort ég fer aftur í laugina í fyrramálið. Olíulítirinn er kominn upp í 170 svo ég stefni á flug milli landshluta frekar en að keyra og hjóla innanbæjar meðan ég þarf ekki að fara að vinna niðri í miðbæ.

Engin ummæli: