Ég setti mér einhver markmið fyrir síðustu viku. Ég náði einum þriðja af þeim. Ég sætt mig við það.
Ég fékk ferðaáætlun FÍ í hendurnar áðan þegar ég kom heim og sat með hana og sorg í hjarta, þar til ég lagði hana frá mér og tók upp hannyrðabækling sem ég fékk líka sendann í pósti. Ég verð víst að sætta mig við að gönguferðir upp um fjöll og fyrnindi eru ekki lengur við mitt hæfi. (Nema gigtin láti undan víkja, það er ekkert alveg vonlaust, eða hvað?)
Ég sat líka með myndakassa í kjöltunni í gær og fletti 30 ára tímabili í myndum. Það var frekar tregablandið. Oft hefur manni fundist tíminn of lengi að líða en þegar maður flettir árunum svona finnst mér ég hefði oftar þurft að njóta augnabliksins. Kannski gerði ég það en man það bara ekki lengur, minnið er orðið gisið.
Fjölskyldumyndirnar segja sögu en þó ekki alla söguna. Þær segja ekki frá því sem gerðist þegar myndavélin var ekki við hendina, var biluð eða ljósmyndarinn á heimilinu of önnum kafinn til að taka myndir.
Þess vegna eru fáar myndir af yngra barninu mínu á fyrsta ári en gífurlegt magn af myndum af því eldra eftir að ný alvöru vél var keypt. Svo eru hér um bil allar myndir af Flubbanum skælbrosandi eða skellihlægjandi. Var hún svona glaðlynt barn eða tók mamma hennar bara upp myndavélina þegar hún var í góðu skapi. Ég man reyndar ekki eftir henni mikið grátandi en stundum í reiðiköstum. Sonurinn er alvarlegri á myndunum.
Ég ætla að eignast skanna, skanna inn allar þessar gömlu myndir og raða svo upp myndaævisögu minni. Verst að þetta eru mest myndir af krökkunum, það er oft eins og þau séu munaðarlaus greyin. Stöku sinnum sést þau að þau áttu mömmu en pabbanum bregður varla fyrir.
Ég opnaði síðuna mína og hugsaði með sjálfri mér, ,,Ég ætla ekki í landafræðileik" en ég fór nú samt í hann. Komst í borð 10 í fyrstu atrennu. Og það er ekki hægt að stækka þetta en stærri skjár þýðir stærri mynd og svo finnst mér ekkert slæmt að hitta 20 km frá Reykjavík. Þetta er nú bara eins og títuprjónshaus á heimskortinu. Mér finnst verra að setja pinnan í vestanvert Kyrrahafið þegar spurt er um einhverjar smáeyjar norðan við Braselíu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli