10. febrúar 2007

Eftirlit og tilkynningaskylda

Ég fékk upphringingu áðan og þurfti að gera grein fyrir ferðum mínum og gerðum. Það sýndi mér að ég þarf að setja inn tilkynningar hérna um dagskrá og dagskrárbreygingar sem verða hjá mér.
Það er nærri vika síðan ég sló á lyklaborð hérna síðast og örstutt yfirlit yfir þá daga sem hafa liðið síðan þá er einhvernvegin svona;

Sunnudagskvöld eftir Kolaport lagiðst ég í rúmið með gólffötuna við rúmstokkinn og gaddavír (ósýninlegan) strengdan um höfuðið frá enni og niður í hnakkagrófina. Einhver ósýnilegur drýsill herti og slakaði á þessari gaddavírsumgjörð á víxl og stöku sinnum stakk ég höfði fram af rúmbríkinni, ofan í fötuna á gólfinu og gubbaði. Á þessu gekk í nokkra klukkutíma og þegar ég leit í spegil daginn eftir var húðin öll út í rauðum smádílum eins og ég hefði legið á nálapúða og eldrauður flekkur í öðru auganu.
Ég staulaðist í vinnu á mánudagsmorguninn, sinnti því allra nauðsynlegasta og fór svo heim í rúm aftur.
Á miðvikudag aflýsti ég Esjugöngu, það var kuldi og í mér var hræðsla um að kuldi og göngur framkölluðu gaddavír um höfuðið á mér.
Á fimmtudag horfði ég á alla Kastljósþætti vikunnar til að vera umræðuhæf um dægurmálin.
Ég dáist að sannfæringarmætti fjölmiðlanna sem er beitt nokkuð markvisst í þessum þáttum. Sömu spurningar, sömu svör hjá öllum viðmælendum og síðan er spurt úti á götu sömu spurninganna og að sjálfsögðu fáum við engin ný sjónarhorn á málið né ný svör við spurningunum. Aðeins sá aðili sem hefur verið að gera heimlildarmynd um málið reyndi að opna viðari sýn á það og samfélagið sem þetta allt er sprottið upp úr en það var klippt snarlega á þá tilraun.
Ég hallast að þvi að fjölmiðlar sér forheimskandi einhliða áróðurstæki. Þeir finna söluvænleg mál, nú eða búa þau til, taka afstöðu, draga fram vitni, dæma og refsa í stað þess að gefa okkur upplýsingar og láta okkur svo reyna aðeins á eigin dómgreind.
,,Trúin er ópíum fólksins" sagði maðurinn, ég vil meina að í dag séu fjölmiðlar ópíum fóksins.

(ef þessi tilvitnun er röng tek ég við leiðréttingum)

Á föstudag fór ég til sjúkranuddara, stundum þarf hraustlegt spark til að koma manni í réttan gír, og nuddarinn reyndist nota höfuðbeina og spjaldhr. meðferð (ég er ekki vissu um að ég sé að skrifa þetta rétt) og óaði og æjaið yfir allri spennunni sem hann fann hvarvetna í stoðkerfinu hjá undirritaðri.
Tíminn hjá osteópatanum var svo langur að ég rétt náði að fara á vinnustaðinn aftur og ná í gögnin sem biðu eftir mér þar vegna vegabréfsáritunarinnar sem ég var að fara að sækja um.
Ég var hálftíma of sein á námskeið á vegum vinnunar og með hárið löðrandi í nuddolíu þar sem enginn tími var fyrir eitthvað pjatt eftir nuddtímann.
Stakk af á námskeiðinu til að þvo hárið áður en ég færi á kynningar- og vegabréfsáritunarumsóknarfund, sem ég var auðvitað hundskömmuð fyrir að mæta of seint á, og þaðan var farið beint í martarboð vinnuveitandans.
Nýjasti pöbbinn skoðaður eftir matarboðið og sú skoðunarferð dugði til þrjú um nóttina.
Heilsan hefði mátt vera betri í morgun og ég hefði ekki haft neitt á móti því að vakna upp í skálanum í Langadal en ferðinni þangað var frestað þegar góður og grandvar maður í bænum tók upp á því að andast svo dóttir hans og systkynabörn höfðu um annað að hugsa en jeppaferðalög.

Við frestuðum Þórsmerkurfeðinni um óákveðinn tíma en hún verður farin!


(birt með fyrirvara um prentvillur og gengisbreytingar)

1 ummæli:

Hafrún sagði...

Maður skyldi nú ætla að sjúkranuddari kæmi fólki í djammfært ástand og losað það við mesta gaddavírinn.
Austur eftir ca. tvær vikur.