Veira sem ég smitaðist af einhverntíma, kannski fyrir fæðingu, en hefur legið í dvala nokkuð lengi er að herja á mig núna. Ég veit ekki hvað veldur þvi, kannski þessi gífurlegi teikniáhugi Sjúkraliðans sem loksins tók sig saman í andlitinu og fór að vinna með þá hæfileika sína sem ég er búin að hamra á í mörg ár að hún eigi að sinna.
Það er merkilegt með þetta fólk sem hefur ,,talent", eins og einhver myndlistarkennarinn minn kallaði það, það lítilsvirðir þá hæfileika sem því voru gefnir með genunum, berst um í einhverju drulludíki sem þeir eiga ekkert erindi í og skilar þeim litlu og sóa svo kröftum sínum í að hringla fram og til baka í baráttu við vindmyllur.
Þeir taka til sín sem eiga.
Allavega er einhver fiðringur í fingrunum á mér og ekki vegna þess að mig klæi í fingurnr eftir að skrifa skammarpistla til vina og vandamanna, heldur langar mig fj. mikið til að finna teikniblokkina og blíant.
Ég á svo sem einhvern slatta af hálfkláruðum myndum en ég hef ekki nokkra trú á að ég nái að gera neitt af viti við þær og sjálfsagt langbest að skríða undir sæng og sjá hvort ég teikna ekki bara í svefni.
Svo keypti ég mér miða á sýningu í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Mætin þar á sunnudagskvöld og það er eins gott að hún verði eins góð og af er látið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli