21. mars 2006

Gott er að eiga góða að.

Ég hélt margra daga afmælisveislu í tilefni mánudagsins. Vegna gífurlegs félagslegs þrýsings á vinnustað þorði ég ekki annað en færa vinnufélögunum eitthvað með kaffinu en ,,svindlaði” aðeins og bætti afmæliskaffinu við föstudagskaffið.
Á sunnudag var ég búin að plana að elda eitthvað gott fyrir fjölskylduna og einn Sjúkraliða með viðhengi en af óviðráðanlegum orsökum skreið ég undir sængina mína seinnihluta sunnudagsins og lét aðra um að elda matinn. Þau stóðu sig eins og hetjur og sáu alveg um að elda matinn sem ég ætlaði að bjóða þeim í og höfðu svo mikið við að ofnbaka sérstaklega grænmeti sem enginn borðar nema ég og bættu líka í það ávexti sem ekkert þeirra skilur að ég skuli vilja hafa í grænmetinu mínu. Það eru svona smáatriði sem sýna hugulsemi.
Þau lögðu til ávexti, osta og rauðvín sem var ekki á upphaflega matseðlinum hjá mér og eyddu með mér notalegri kvöldstund. Að vísu varð einhver misskilningur hjá syninum og tengdadóttirinni, þau áttuðu sig ekki á tilefninu og hún sat ein heima yfir skólabókum.
Þessi misskilningur varð auðvitað til þess að ég bakaði pönnukökur fyrir þau í gærkveldi og þar með var kominn þriðji í afmæli.
Ég á Útivistarbókina og ég á tvo heilsukodda og það er nokkuð ljóst að mínir nánustu vita hvað mér kemur.
Mér finnst ég vera ríkasta manneskja sem ég þekki.

Engin ummæli: