Hafrún hlýtur að vera að bugast, hún nennti ekki í jeppaferð um helgina! Hvort það hafði eitthvað með veðurspána, menningarnóttina og þreytu að gera veit ég ekki en mig grunar það. Það hljómaði líka eitthvað svo notalega að vera bara heima hjá sér og gera sem minnst þessa helgina. Fara á flugeldasýningu og útitónleika á hafnarbakkanum, rölta um bæinn án þess að ætla sér að sjá nokkuð sérstakt, bara taka því sem að augum og eyrum ber, kaupa sér regnhlíf ef þarf eða sleppa því ef ekki rignir. Hversdagsleg smáatriði verða stundum notaleg eftir spanið við að koma sem mestu í verk á stuttu íslensku sumri.
Þjórsárverin voru fín þó ég ofkældist á heimleiðinni. Ég veit ýmislegt sem ég vissi ekki um áður, hvernig rústir myndast, að Gullbráin er steinbrjótur og þó það sé ekki þverfótað fyrir henni á Íslandi vex hún ekki nema á þremur öðrum stöðum í Evrópu þar sem allt jarðrask er bannað til að vernda hana.
Ég sá á freðmýrarrústir og ég sá rústir eftir mannabústaði. Það fór hrollur um mig við tilhugsunina um Höllu hans Eyvindar búandi í torfkofa á stærð við herbergið mitt, út í mýri en þægindin voru helst þau að Eyvindur leiddi lindarvatnið undir húsið svo það hefur ekki þurft að ösla mýrina til að ná í vatn. Á hverju lifði fólkið þarna inni í óbyggðum? Það er að vísu nokkuð öruggt að þau færðu sig til byggða á haustin og voru í vinnumennsku hér og þar yfir veturinn en lögðust út á sumrin. Ég gæti alveg hugsað mér að leggjast út á sumrin en ekki í torfkoma eða hella með slaga og raka lekandi niður veggina. Útilegumennska virkar ekki aðlaðandi í skúraveðri uppi á reginöræfum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli