23. júní 2005

Jónsmessunótt

Jónsmessunótt er að ganga í garð og það er þungskýjað og dimmt yfir höfuðborginni. Ég nenni ekki að fara niður i Laugardal til að vaka fram eftir og athuga hvort margir velta sér upp úr dögginni í nótt. Ég ætla allavega að sleppa því enda engi dögg í garðinum hjá mér í nótt, garðaúðarinn á fullu og vætan úr honum flokkast ekki undir dögg.

Ætlaði að fara og eyða peningum í blóm, tré og runna áðan en talaði frá mér allt vit í útidyrunum í Engjasmáranum og náði bara rétt svo í næstu gróðrarstöð fimm mínutum fyrir lokun.

Keypti mér eina fjölæra plöntu og setti niður í fósturgarðinum, í staðin plokkaði ég helling upp úr garðinum og fór með heim til mín.
Rauk svo út á frímerkið bak við hús vopnuð malarskóflunni sem ég keypti á 499 á tilboði í Húsasmiðjunni og stækkaði beðið sem við mæðgurnar útbjuggum í fyrra.
Hjó í sundur asparræturnar frá nágrannanum sem voru farnar að vefja sig utan um brunnhelvitið sem er plantað niður í miðri lóðinni.
Ég vona að mér hafi tekist að ná öllum þeim rótum sem hafa lætt sér yfir lóðamörkin. Ef hugarorkan dygði til að drepa eitthvað væru þessar aspir á lóðamörkunum steindauðar, líka lúpínufjandinn sem æðir um allt byggt ból eins og logi yfir akur.

Er orðin hundleið á að vera ein heima, þe þá daga sem ég er ekki að vinna til miðnættis. Hér er enginn sem vaskar upp eftir mig eða tínir upp eigur mínar af stofuborðinu og hendir inn á rúm til mín.
Verð að gera allt sjálf þessa dagana.
Sendi sms til Afríku í kvöld, ,,tu ert buin að vera nogu lengi uti, drifdu tig heim." Ég á fastlega von á að mér verði hlýtt og Tölvunarfræðingurinn minn taki næstu vél heim.

1 ummæli:

Hafrún sagði...

Fékk sms frá henni klukkan hálf fimm í morgun að íslenskum tima, hún sagðist vera á leið að Viktoríuvatni en minntist ekkert á að taka næstu vél heim!
Ég bara skil þetta ekki!