5. júní 2005

Heimkoman

Komin heim og í sumarið, skildi kuldann og þurkinn eftir á Austurlandinu. Eftir því sem vestar dró varð ég meira vör við sumarið og gróðurinn. Hefði alveg getað unnt Austurlandinu að fá nokkra af þeim rigningarskúrum sem dundu á mér á leiðinni en það þýðir víst ekki um það að fást, vonandi fer veðrið að lagast þar fljótlega bæði gróðurs, dýra og mannana vegna.
Útsýnið út um bílgluggana hjá mér var frábært, og þó sólarlagið á Rangárvöllunum væri óþægilega mikið beint í augun var það of fallegt til að ergja sig út af. Sólin settist þar klukkan 23:18 samkvæmt klukkunni í bílnum en þá var ég stopp í vegakantinum til að lofa sólinni að síga síðasta spölinn án truflunar frá mér. Eða réttara sagt þá ákvað ég að teygja aðeins úr mér og njóta útsýnisins ótrufluð af akstri.
Eini ferðafélaginn var ég sjálf og gat þess vegna haft græjurnar í botni og spilað það sem mér sýndist enda hef ég sjaldan verið svona laus við syfju á langri keyrslu fyrr. Þarf samt eitthvað að bæta við diskasafnið áður en ég legg veg undir dekk næst.

Sá það í dag að mér veitti ekki af tveimur frídögum í viðbót til að sinna ýmsu hérna heima. Íbúðin ber þess merki að kettirnir og gullfiskarnir hafa mest verið einir heima síðustu tvær vikur og hvorugir þrífa í kringum sig. Tölvunarfræðingurinn hefur lítið komið heim til sín og verið svo stressuð af vinnu og ferðaundirbúiningi að það hefur ekki einu sinni verið hægt að tala við hana í síma. Skoðaði aðeins fósturgarðinn minn og hann er í sorglegri vanhirðu en því miður var enginn tími hvorki í tiltekt heima eða í garði í dag, mínum starfskröftum var varið í að hlaupa út og suður í Smáralindinni og tína til föt af ýmsum stærðum og ótal gerðum handa Tölvunarfræðingnum til að máta. Hún þarf að hafa með sér tvent af þessu og eitt af hinu og þessu og mamma hennar er alltaf besti kosturinn þegar þarf að eyða tveimur til þremur tímum í mátun. Hún er búin að koma sér upp aukaskammti af þolimæði við að finna nýjar og nýjar flíkur til að máta og hlaupa út og suður að finna réttar stærðir og liti. Mikið væri lífið auðveldara ef fatahönnuðir reiknuðu með margbreytileika mannana í hönnun.

Á morgun er vinnudagur og af því ég frestaði mánaðamótum þarf ég helst að gera helling á tveimur vinnustöðum fyrir hádegi. Ætlaði mér seinnipartinn í annan staðinn en mundi þá að það er búið að skikka mig í Esjugöngu klukkan 7 á morgun. Er þess vegna að hugsa um að skreppa á eins og einn stað og skila vaskskýrslu strax það átti allt að vera tilbúið til þess. Píparinn ætlar nefnilega að koma með pappírana sína til mín á eftir og við þurfum að opna póstinn hans og ganga frá einhverju þar.
Saumavélin er sem betur fer komin í lag, það þarf að sauma einn lakapoka handa ferðalangnum. Ég veit ekkert hvort lakapoki er rétta nafnið á þessu en minnir ég hafi heyrt það kallað það einhverntíma. Poki úr lakalérefti til að hafa innan í svefnpokanum, í þessu tilfelli verður hann úr flóneli. Hvenær í ósköpunum...!
Ég þarf að funda annað kvöld!.. og hún leggur af stað í langferð á miðvikudag..!
Þetta bjargast allt, ég hætti bara að eyða tímanum í blogg!

Engin ummæli: