Flaug inn í jólakort á laugardagsmorguninn.
Hvítur snjór, silfrað fljót með ljósgylltum bjarma frá sólinni sem skýldi sér bak við skýin rétt ofan við heiðina. Svarbrúnt kjarrið í hólmum og á fljótsbakkanum þar sem stöku gulleitur sinutoppur stakk sér upp úr snjónum.
Var að hugsa um að standa bara í vegarbrúninni við fljótsbakkan og fara ekkert lengra.
Hvort fjallvegirnir með hálku og snjó allt í kring höfðu eitthvað með það að gera að vilja ekki fara lengra veit ég ekki fyrir víst, en veit að þegar fór að hlána var það tilhugsunin um að fara yfir þá til baka sem hélt fyrir mér vöku. Þoli ekki að keyra í hálku, allra síst ef ég er ekki sjálf undir stýri.
Er þreytt eftir vinnutörnina um helgina, hélt áður en ég fór að ég gæti aðeins sinnt sjálfri mér og eytt tíma ,,heima" en það varð lítið úr því, náði ekki á flugvöllinn í tæka tíð í morgun og missti þess vegna dag úr vinnu.
Eins gott að það er flogið oft á dag í jólakortið annars væri ég þar enn en núna í rigningu og snjóleysi.
Gæti stundum alveg hugsað mér að vera nær fjöllum, fjörum og fljótum en ég er í dag. Bara ef ég gæti sleppt að keyra fjallvegi að vetrarlagi.
Gleymdi auðvitað myndavélinni heima og á netinu finn ég bara myndir af svæðinu teknar í sumri og sól. Og ég sem ætlaði að fara að æfa mig í að minnka og laga myndir í photoshop eins og var verið að benda mér á. Sem minnir mig á að það fer að verða aðkallandi að læra á það, ég þarf að minnka og netaðlaga myndirnar sem ég er með á netsvæðinu, það er nfl. fullt.
Ég ætla bráðum að hafa tíma til að gera þetta allt og setja upp pínulitla heimasíðu fyrir vinnuna. (jamm ég veit er búin að vera á leiðinni til þess allt þetta ár en er að verða búin að gleyma öllu sem ég lærði á námskeiðinu síðastliðinn vetur!)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli