Gönguskórnir mínir eru óhreinir eftir daginn.
Það er ánægjuefni, líka þó ég hafi verið í eilífðartíma að ná upp þokkalegu hitastigi eftir að ég kom heim.
,,Hvað" segir fólk ,,það var 6 stiga hiti í dag" en mér tókst nú samt að ofkæla mig aðeins á heimleiðinni. Sat í bíl með jöxlum sem ekki nota miðstöð og af því fötin mín voru orðin svitablaut eftir síðasta spölinn sló að mér.
Labbaði á eina dyngju, eitt fell og eftir einni gjá sem ég vissi ekki fyrr að væri til. Alltaf gaman að skoða það sem maður vissi ekki að væri til.
Lærði 3 ný örnefni og ætla að reyna að muna þau. Lambafell, Lambafellsgjá og Fíflavallaháls. Lærið ekki hvar Fíflavellirnir eru af þvi það veit það enginn lengur.
Er ekki í góðu formi og það sannaðist í dag. Komst samt það sem ég ætlaði mér en hefði sennilega farið hægar yfir ef ég hefði verið ein á ferð. Horfði á eftir stærri hluta hópsins hlaupa upp tvær dyngjur meðan ég skreiddist upp eina en að vísu á brattasta stað. Reyndi að halda í við göngugarpinn sem tók forustuna. Það eru alltaf einhverjir svona undanfarar í öllum hópum sem reyna að fara hægt en það sem þeim finnst hægt finnst öðrum hratt. Svona er lífið og ef ég held áfram að stika þetta þó ekki sé nema annan hvern sunnudag í vetur hætti ég kannski að fá áreynslusvima eftir hundrað metra hækkun.
Kom heim ánægð með sjálfa mig, köld og stirð rúmlega þrjú. Sjúkraliðanum hefði verið óhætt að koma með tímans vegna en það er ekki hægt að vera á ferðinni bæði nótt og dag.
Kannski seinna.
Opnaði svo póstinn minn áðan fyrir slysni. Fékk einkun úr öðrum áfanga í náminu.
10.
Dugir þá 6 á næsta prófi til að ná náminu.
Lífið er í ljósari litum þessa stundina þrátt fyrir skammdegið.
http://www.norvol.hi.is/~amy/flight_pix.html
Myndavélin var skilin eftir heima í dag en hér er útsýnið eins og ég sá það síðast þegar ég labbaðið þarna upp, þá í sólskini og sumri eins og þessi ferðalangur hefur greinilega gert.
Í dag var lágskýjað og þokuslæðingur á heiðunum.
Haustið á liti
Haustið á liti sem málverk hafa’ ekki
Leggjast á sálina, færa þig í hlekki
Rakir litir svo dökkir og djúpir
Stundum svo harðir, stundum svo mjúkir
- - - -
Bubbi Morthens
Engin ummæli:
Skrifa ummæli