Hafrún á að fara í próf eftir rúma viku. Hún er strax komin með hnút í magann.
Menntaskólaneminn er að klára að skrópa sig út úr skóla. En það verður víst að vera hans vandamál. Prag bíður hans í allri sinni dýrð (fornu dýrð er víst nærri lagi) framhaldið ræðst svo þegar hann kemur heim. Hvort sem hann nær að útskrifast á haustönn eða ekki er það enginn heimsendir. Ein önn til eða frá drepur engann, mamma hans er enn í skóla og er þó 24 árum eldri.
Hafrún þarf að koma skikki á vinnumálin sín. Er að spá í að ráða sér undirverktaka til að þurfa ekki að missa nokkra spón úr aski sínum. Þarf allavega að leggjast undir feld og ákveða sig.
Steinunn Valdís er orðin borgarstjóri Reykjavíkur. Sigurður Geirdal hefur aldrei unnið hjá olíufélagi svo ég viti þannig að Kópvogingar sleppa við bæjarstjóraskandal. Við höfum auðvitað bæjarfulltrúa sem sér til þess að við gleymum ekki hvað orðin spilling og hneyksli standa fyrir. Það er nauðsynlegt í hverjum bæ.
Það var viðtal við alþingismann sem sagði af sér fyrir 10 árum vegna, já vegna hvers? Ég er löngu búin að gleyma því en man að mér fannst það rétt á sínum tíma, að segja af sér sko.
Þessi maður fékk góða kosningu í næstu alþingiskosninum. Ég held að það sýni að við verðlaunum okkar menn fyrir spillingu svo Þórólfur og olíufurstarnir komast væntanlega á þing eða í borgarstjórn. Allavega ef þeir fara í framboð.
Annars er þetta kannski af kristilegum kærleika sem við styðjum við bakið á spilltum einstaklingum. Það er kristilegt að fyrirgefa. Kristilegt að rétta föllnum konum og körlum kærleiksríka hjálparhönd og styðja þau inn á þing eða í feit embætti á vegum hins opinbera. Við erum minnug sögunnar af Kristi og Maríu Magdalenu.
Sé nú annars ekki fyrir mér að konum í þessu þjóðfélagi fyrirgefist jafn mikið og körlunum. Man ekki eftir neinni konu sem hefur gerst sek um fjárdrátt og hefur fengið ráðgjafaembætti hjá ríki eða sveitarfélögum. Þar ræður kannski líka starfsaðstaða á refistíma. Kvennafangelsið býður ekki upp á góða starfsaðstöðu til listsköpunar.
Svo er heldur ekki hægt að horfa framhjá metnaðarleysi kvenna, þær eru flestar metnaðarlausar í spillingu jafnt sem öðru.
Og þannig voru þau orð. Hafrún þarf að hrista af sér metnaðarleysið og stefna að ágætis einkun í næsta áfanga námsins og það næst ekki með þvi að hanga í tölvu og blogga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli