16. nóvember 2004

4x4

Það snjóar! Snjóar í Reykjavík, snjóar í Garðabæ, snjóar í Kópavogi og ég býst við að það snjói líka í Hafnarfirði og kannski bara um allt land.
Heyrði ekki betur áðan en það væri varað við stormi á suðausturlandi. Ég vona að ættingjarnir haldi sig bara heima við og séu ekki að þvælast neitt á fjallvegum núna.
Ég skyldi bílinn minn eftir í vinnunni. Þar stendur hann á sínum sumardekkjum og sparar mér bensín og dekkjaslit. Jólalegur og flottur undir þykku lagi af snjó. Hefði átt að kveikja inniljósin í honum svo hann væri eins og upplýst snjóhús.
Kannski ég fari út í garð og búi til snjóhús til að setja kerti inn í.
Er samt ekki bíllaus Kennarinn var nefnilega nýbúinn að gera upp bíl sem hann keypti bilaðann og var að skipta um heddpakkiningu í. Fjórhjóladrifinn eðalvagn eða með öðrum orðum dálítið ryðgaða Toyotu á ónelgdum ósamstæðum dekkjum. Þrátt fyrir það er þessi blessuð Toyota talsvert stöðugri í hálku og snjó en bíllinn minn og af því Kennarinn er höfðingi og góður við fyrrverandi konuna sína þá lánaði hann mér bílinn og meira að segja tók á hann bensín líka handa mér.
Ég hef þess vegna hugsað mér að fara allra minna ferða í kvöld og á morgun. Bannaði Menntaskólanemanum (sem mætir enn í skólann) að koma heim frá kærustunni á bílnum til að fara aftur í kvöld til að keyra aftur hingað á morgun til að komast í skólann.
Bíllinn hans á að heita á heilsársdekkjum en mér er tjáð af kunnugum manni sem hefur umsjón með bílum barnanna og sinnar fyrrverandi að umræddur bíll sé sleði og það er þá á honum ferðabann í kvöld.
Seeem kostar mig ferð í bæinn með námsefnið handa drengnum.
Ég fæ semsagt að þvælast um allan bæ í myljandi snjókomu og hálku og horfa á vesalingana sem ekki gátu skilið bílana sína eftir í vinnunni og fengið lánuð ökutæki. Það eru heldur ekki allir sem athuga að þetta stóra gula sem fer hérna eftir götunum er eitthvað sem má taka sér fara með þegar einkabíllinn spólar. Ég held að það hefði sparað mörgum margann aurinn að gera það áðan amk. miðað við öll þau bláu blikkljós sem ég sá skreyta höfðuborgarsvæðið áðan.
Farin á snjórúnt.

Engin ummæli: