Komin heim og það er ausandi rigning og þoka. Bæjarlækurinn orðinn að stórfljóti og endurnar una glaðar og kátar við sitt í girðingu og tjörn. Nokkrir steggir eru í útlegð því hjá aliöndum gengur ekki að hafa einn stegg á hverja önd svo þeim var hent út úr girðingunni öllum nema einum. Hef verið að horfa á þá undanfarið þessa sem eiga að geta valsað um fríir og frjálsir með allan heiminn sem leikvöll amk. allt túnið og fjöruna líka en þeir kunna ekki að meta frjálsræðið og vappa hring eftir hring kringum girðinguna um andapollinn, þar sem kvenkyns endurnar eru. Hring eftir hring. Rífa kjaft annað slagið og slást. Vekur hjá manni heimspekilegar hugleiðingar um mannlegt og andlegt eðli. ´
Komst að því í dag að tölvutengingin virkar alveg ágætlega hérna. Að vísu kann ég varla lengur að nota gamaldags módemtengingu en læt mig hafa það. Er orðin ansi netháð og háð því að sjá hvað er að gerast í bloggheiminum. Nenni að vísu ekki að lesa margar síður þar sem ég þarf að bíða í nokkrar mín. eftir hverri. En þetta er samt lúxus sem ég á erfitt með að vera án.
Kom austur á þriðjudag í sumri og sólskini, kom vélorfi í gang og fór að slá. Sló líka daginn eftir þangað til orfið var orðið bensínlaust og kominn tími til að raka saman. Úr þvi að maður kemst ekki í heyskap lengur í sveitum landsins verð ég að útbúa mér svona gamaldags hrífuheyskap, rúllubindivélar hafa eyðilagt stemminguna (og puðið) af alvöruheyskapnum. Rakaði saman og setti mitt hey upp í sátur eins og í gamla daga. Veitti ekki af því það er búin að vera húðarrigning í allan dag. Ekki spáð þurki heldur á morgun svo ég næ að jafna mig af strengjunum eftir sláttinn og hangi inni og geyspa ef ekki léttir til. Er reyndar með handavinnu svo það ætti að minnka aðeins garnstaflinn minn ef ekki styttir upp fljótlega.
Annars er spáð ágætis veðri á Norðfirði og ég er alvarlega að hugsa um að kíkja á Neistaflug og ættingjana þar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli