4. janúar 2011

Vorverkin í kirkjugarðinum

Eins og ég hef nú gaman að velta mér upp úr lesefninu mínu hérna, nema auðvitað námsefninu, hef ég ekki komið mér að því fyrr en nú að láta ljós mitt skína yfir Furðustrandir. Þó er nærri mánuður síðan ég lagði hana frá mér. 
Ástæðan gæti verið sú að Arnaldur er bara höfundur á því þroskastigi að maður getur ekki annað en kinkað kolli og samþykkt söguna. 

Maðurinn kann klárlega sitt fag, ég stoppaði aldrei í lestrinum og hugsaði eins og svo oft í öðrum sögum, svona talar fólk ekki. Nú eða, ææi, hvað er verið að lýsa endalaust því sem engu máli skiptir. Í Furðuströndum koma aldrei svona augnablik. Ólíklegustu athafnir Erlendar, að næturlagi í sjávarplássum á Austurlandi framkölluðu ekki einn stakan hiksta hjá mér. Oft er maður gagnrýninn á sögusvið sem maður þekkir vel en hér dáðist ég bara að því hvað rannsóknarvinnan var vel unnin. Kirkjugarðshliðið, grenitrén og verkfæraskúrinn allt á sínum stað, allt nema leiðið hans Jakobs –vonandi–.  

Sögupersónur eru sannfærandi, hvort sem það eru sérvitrar grenjaskyttur eða aðrir misfurðulegir karakterar. Annars, þegar ég hugsa málið má kannski setja spurningamerki við sérvitringa og furðufugla. Ég man ekki eftir eini sögupersónu sem er ekki smáskrítin, eða það væri kannski réttara að segja með áberandi sérkenni. Væntanlega er það þó dæmi um góða persónusköpun að ég skyldi ekki staldra við það í lestrinum. Við enn nánari umhugsun þekki ég auðvitað ekki neinn sem er ekki smáskrítinn og a.m.k. örlítið sérvitur á fullorðinsaldri. Sumir fæðast auðvitað sérvitringar, ekki síst ættingjar mínir þarna á Austfjörðum.


Endirinn á þessum þvælingi Erlendar inni á heiðum og fjöllum olli mér talsverðum heilabrotum, hann er svolítið eins og stjórnmálaflokkur fyrir kosningar. Alveg óbundinn og opinn í báða enda.  Furðustrandir, já hvaðan kemur nafnið annars,  er góð saga og Arnaldur er að hefja sig yfir reyfarann. Ég tek undir með þeim sem spá því að hann snúi sér að öðru skáldsagnaformi fljótlega.

Ég á svo öruggleg eftir að hugsa til Erlendar þegar ég fer að setja sumarblóm á leiðin mín í vor, líta  af og til um öxl og horfa upp í kirkjugarðshornið.

Engin ummæli: