3. janúar 2011

Vefjagigt og gönguþjálfun

Á vefsíðunni vefjagigt.is stendur meðal annars:
Þjálfun
Ávinningur fólks með vefjagigt af því að stunda þol- og styrktarþjálfun hefur oft verið staðfestur í rannsóknum og ætti því ætíð að vera hluti af meðferð. Þolþjálfun, styrktarþjálfun og þjálfun í vatni hefur gefið bestan árangur og felast áhrifin í bættri líðan, minni verkjum, þreytu, kvíða, og þunglyndi. Þjálfun hefur þessi áhrif meðan hún er stunduð reglulega, en ávinningur þverr smám saman ef þjálfun er hætt. 

Því miður liggur leiðin sífellt niður á við í eintómum vítahringjum þegar maður getur ekki lengur kýlt á stíft prógramm í nokkrar vikur til að koma sér í form aftur. Þjálfunarmörkin eru lág og með því að stunda ekki reglulega létta þjálfun lækka þau sífellt.

Nú langar mig óskaplega að kaupa mér áskrift að Baðhúsinu og reyna að koma mér í betra ástand en ég veit að það er óraunhæft. Tímarnir þar henta ekki og þess vegna lítil von um að ég héldi lengi út. Að setja sér óraunhæf markmið er verra en gera ekki neitt.

Ég gæti svo sem fundið hentugri þjálfunaraðila en þetta er lika spurning um peninga og forgangsröðun, ég tel sjálfri mér trú um að ég geti náð árangri með því að vera minn eiginn einkaþjálfari.

Sú þjálfun sem ég þarf að snúa mér að næstu vikur og mánuði eru þessir daglegu göngutúrar sem ættu að vera lágmark 20 til 30 mínútur á dag. Á síðasta ári tókst mér að ganga nærri  daglega í tæpa fimm mánuði, ég missti ekki nema 5 daga úr og þá vegna veikinda. Eftir að keðjan slitnaði tókst mér ekki að komast í gang aftur og leiðin lág hægt og bítandi niður á við. Nú ætla ég að byrja upp á nýtt.


Það hjálpaði mér að halda samviskusamlega –jæja, samviskusamlega er kannski orðum aukið– dagbók hér á blogginu yfir gönguþjálfunina og ég ætla að gera það aftur. Ekki til aflestrar fyrir ykkur sem eigið leið hér um heldur fyrir mig. Þetta blogg er nú svo sem allt fyrir mig gert hvort sem er ;-)

Ég lofa því samt að vera ekki með daglega tilkynningaskyldu yfir dugnaðinn eða dugleysið heldur hafa listann minn á lítið áberandi stað. Agaleysið er bara svo mikið að ég þarf á þessu að halda.

Svo gróf ég upp handlóð og passaði mig á að leggja þau frá mér eftir 5 en ekki 25 endurtekningar og slapp þar af leiðandi við verkjakast. Það getur verið erfitt að finna réttu mörkin þegar taugakerfið segir ekki til fyrr en sólahring eftir þjálfun.

Þetta er ekki áramótaheit, það er bara svo þægilegt að byrja að telja á 1. Nú er ég búin að labba 2 daga af 2 á árinu. Ég meina 3/3.

Engin ummæli: