Það hlýtur að vera orðið talsvert mikið álag á heilabúinu í mér þegar ég hreinlega gleymi að fara hingað inn. Bæði til að skrifa og til að sjá hvað aðrir segja. Þetta voru nú reyndar bara tveir dagar, en samt!
Næsta vika stefnir í enn meira stress og það er eiginlega ekki fyrr en eftir 10. febrúar sem ég hef tíma til að kasta mæðinni. Ekki það að ég kasta nú oft mæðinni þó ég hafi engan tíma til þess, núna ætla ég t.d. að skreppa og hlusta á smá fyrirlestur um eðli og ættir Loka.
Eftir það, tilraun til að muna útlensk orð. Ég á orðið átakanlega erfitt með að læra utanbókar, hvort sem er, ljóð eða orðalista.
Þá er að aðlagast aðstæðum og nú ætla ég að plasta núþálegar þýskar sagnir, já og nokkrar óreglulegar, og líma innan í stýrið. Ég keyri einu sinni í viku í á Völlinn og það er ágætis tími fyrir utanbókarlærdóm. Svo prenta ég lista yfir enskar forsetningar og hengja yfir höfðagaflinn á rúminu. Ágætt að rifja þær upp á morgnana.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli