24. janúar 2011

Bardús

Það þarf ekki alltaf mikið til að gleðja mig. Núna leit ég á klukkuna og mundi að ég kláraði minn daglega göngutúr á miðjum degi. Það var svo ánægjulegt að ég hætti að dotta fram á lyklaborði, já, ég eiginlega glaðvaknaði og er nærri tilbúin til að drífa mig út í smá göngutúr. Ætli ég sleppi því samt ekki.

Annars finnst mér gott að rölta úti seint á kvöldin, sérstaklega þegar er stjörnubjart. Það var léttskýjað í gærkvöld og Betelgás blikað eldrauð í öxlinni á Oríon.  Kannski sprakk hún í gær og þá verður skjannabjart í tvær vikur á jörðinni eftir 650 ár. Kannski sprakk hún fyrir 649 árum, þá verður lesbjart allan sólahringinn í janúar á næsta ári. Ég er orðin leið á þoku og myrkri svo ég hefði svo sem ekkert á móti einhverju sem hrekti það í burtu tímabundið.

Í dag rölti ég á bókasafnið og skilað blessuninni henni Yrsu, kláraði svo stóran gönguhring áður en ég fór heim að stressa mig við vinnu og undanskot frá námsbókum.

Og í kvöld komst ég að því hvernig Yndislestur fer fram í Endurmenntun Háskóla Íslands. Þáveit ég það og ég er ekki viss um að mér henti að sitja í 23 manna hópi og hlusta á aðra bulla. Ætli mér hentaði ekki best að bulla í fámennum hóp og heypa ekki öðrum að. En við töluðum, þ.e. þau töluðu ég hugsaði mitt, um Ljósu.
Ég las Ljósu í gærkveldi  og hugsaði um hana í dag, ég held að ég þurfi að lesa hana aftur. Svo hlustaði ég á höfundinn tala um bókina í kvöld. Ég held að ég þurfi samt að hugsa um hana lengur, skoða allar hliðar. Hún er í mörgum lögum, sagan sú.

Nú vantar mig Svarið við bréfi Helgu, bókina með endalausa nafninu sem byrjar á Handritið... og Allt fínt en þú. og Hreinsunina en ég treysti því að konan á Seltjarnarnesinu geti lánað mér hana. Furðustrandir er ég sem betur fer búin að lesa. 

Ég ætla sko ekki að kaupa allar þessar bækur, kannski Blóðhófnir samt, ég er búin að panta þær á bókasafninu en tíminn er knappur og ekki víst að ég fái þær.   

Ef einhver sem ég þekki og á þessar bækur á leið hér um er sá hinn sami hér með sleginn um lán, bókalán.

Það fer að styttast í næsta próf og eins og sést hér tel ég mig hafa nóg annað að gera en blogga. Hvort það er eitthvað þarflegra er svo önnur saga.

Engin ummæli: