29. janúar 2011

Ich vergesse

Það hlýtur að vera orðið talsvert mikið álag á heilabúinu í mér þegar ég hreinlega gleymi að fara hingað inn. Bæði til að skrifa og til að sjá hvað aðrir segja.  Þetta voru nú reyndar bara tveir dagar, en samt!

Næsta vika stefnir í enn meira stress og það er eiginlega ekki fyrr en eftir 10. febrúar sem ég hef tíma til að kasta mæðinni. Ekki það að ég kasta nú oft mæðinni þó ég hafi engan tíma til þess, núna ætla ég t.d. að skreppa og hlusta á smá fyrirlestur um eðli og ættir Loka.

Eftir það, tilraun til að muna útlensk orð. Ég á orðið átakanlega erfitt með að læra utanbókar, hvort sem er, ljóð eða orðalista.

Þá er að aðlagast aðstæðum og nú ætla ég að plasta núþálegar þýskar sagnir, já og nokkrar óreglulegar, og líma innan í stýrið. Ég keyri einu sinni í viku í á Völlinn og það er ágætis tími fyrir utanbókarlærdóm. Svo prenta ég lista yfir enskar forsetningar og hengja yfir höfðagaflinn á rúminu. Ágætt að rifja þær upp á morgnana.

24. janúar 2011

Bardús

Það þarf ekki alltaf mikið til að gleðja mig. Núna leit ég á klukkuna og mundi að ég kláraði minn daglega göngutúr á miðjum degi. Það var svo ánægjulegt að ég hætti að dotta fram á lyklaborði, já, ég eiginlega glaðvaknaði og er nærri tilbúin til að drífa mig út í smá göngutúr. Ætli ég sleppi því samt ekki.

Annars finnst mér gott að rölta úti seint á kvöldin, sérstaklega þegar er stjörnubjart. Það var léttskýjað í gærkvöld og Betelgás blikað eldrauð í öxlinni á Oríon.  Kannski sprakk hún í gær og þá verður skjannabjart í tvær vikur á jörðinni eftir 650 ár. Kannski sprakk hún fyrir 649 árum, þá verður lesbjart allan sólahringinn í janúar á næsta ári. Ég er orðin leið á þoku og myrkri svo ég hefði svo sem ekkert á móti einhverju sem hrekti það í burtu tímabundið.

Í dag rölti ég á bókasafnið og skilað blessuninni henni Yrsu, kláraði svo stóran gönguhring áður en ég fór heim að stressa mig við vinnu og undanskot frá námsbókum.

Og í kvöld komst ég að því hvernig Yndislestur fer fram í Endurmenntun Háskóla Íslands. Þáveit ég það og ég er ekki viss um að mér henti að sitja í 23 manna hópi og hlusta á aðra bulla. Ætli mér hentaði ekki best að bulla í fámennum hóp og heypa ekki öðrum að. En við töluðum, þ.e. þau töluðu ég hugsaði mitt, um Ljósu.
Ég las Ljósu í gærkveldi  og hugsaði um hana í dag, ég held að ég þurfi að lesa hana aftur. Svo hlustaði ég á höfundinn tala um bókina í kvöld. Ég held að ég þurfi samt að hugsa um hana lengur, skoða allar hliðar. Hún er í mörgum lögum, sagan sú.

Nú vantar mig Svarið við bréfi Helgu, bókina með endalausa nafninu sem byrjar á Handritið... og Allt fínt en þú. og Hreinsunina en ég treysti því að konan á Seltjarnarnesinu geti lánað mér hana. Furðustrandir er ég sem betur fer búin að lesa. 

Ég ætla sko ekki að kaupa allar þessar bækur, kannski Blóðhófnir samt, ég er búin að panta þær á bókasafninu en tíminn er knappur og ekki víst að ég fái þær.   

Ef einhver sem ég þekki og á þessar bækur á leið hér um er sá hinn sami hér með sleginn um lán, bókalán.

Það fer að styttast í næsta próf og eins og sést hér tel ég mig hafa nóg annað að gera en blogga. Hvort það er eitthvað þarflegra er svo önnur saga.

21. janúar 2011

Þorri hafinn

Í dag er bóndadagur og fyrsti dagur í þorra. Um hann segir þetta:

Um þetta segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðri 19. öld, að það var „skylda bænda“ „að fagna þorra” eða „bjóða honum í garð” með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og út í skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa.

Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag. Þetta hét „að fagna þorra”. Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur”. Á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn þorrablót.

Ég fékk þetta lánað hjá þeim sem fékk þetta lánað úr Sögu daganna, sem er bók sem mig langar virkilega í.
Mér finnst að það sé kominn tími til að vinda ofan af þessu sölumennskukjaftæði um blóm og/eða aðrar gjafir kvenna til karla sinna. Karlar eiga að sjálfsögðu ekki að fá blóm, aðrar gjafir eða veislu fyrr en þeir eru búnir að hoppa kringum húsið að þjóðlegum sið.

Svo er ég farin á blót með öllu hinu einkennilega fólkinu sem blótar þorra að heiðnum sið.
En fyrst göngutúrinn minn. Ég bíð ekki í göngutúr eftir blót.

18. janúar 2011

Anda djúpt

Þessa dagana æfi ég djúpöndun. Þýska, anda djúpt, vinna, anda djúpt, enska, anda djúpt, enskuverkefni, anda, og svo koll af kolli. Ég velti því fyrir mér í fúlustu alvöru að taka enskuna líka í staðnámi en mig langar bara svo óskaplega til að klára hana frá um mánaðamótin. Auðvitað myndi ég læra meira á að mæta einu sinni í viku fram í maí og svo er hún næsti tími á undan þýskunni sem ég mæti hvort eð er í.
Ætli ég haldi samt ekki bara áfram að anda djúpt og reyna að hópfélagana vinna sem mest í verkefnunum án mín.

Svo þekki ég konu sem er að læra um heimsbókmenntirnar í HÍ, lesemnið er meira að segja á íslensku. Látið ykkur samt  ekki detta í hug að ég öfundi hana hið minnsta. Ekki heldur af teikninámskeiðinu í Myndlistarskóla Kópavogs, eða hvar sem það er. Ekki vitund.
Farin út að labba og anda djúpt framan í rokið.

17. janúar 2011

Merkilega treg (stundum)

Eins og ég er að eðlisfari bráðskörp furðar mig oft á því hvað ég get verið treg. Í dag mætti ég á fund hjá konu sem hefur einstakt lag á að koma manni í skilning um að óstundvísi sé löstur mikill.  Ég var komin að fundarstað hálftíma fyrir boðaðan fund. Er ekki líka óstundvísi að mæta of snemma? Ég hélt það að minnsta kosti og sat úti í bíl meðan klukkan mjakaðist áfram. Það var fljúgandi hálka og skórnir hentuð ekki fyrir skautagöngu á gangstéttum Vesturbæjarins.Annars hefði biðin ekki verið vandamál.

Um leið og ég lendi í svona aðstæðum undrast ég mína eigin tregðu. Hvar er bókin sem á alltaf að vera í töskunni svo hægt sé að grípa hana upp og lesa sér til óbóta meðan maður bíður. Hún er ekki í minni tösku. Ekki prjónarnir heldur, bara sími með óspennandi tölvuleikjum og sem enginn vill svara hringingum úr.
Ég þarf greinilega að fá mér stóra, og á meina ég s t ó r a tösku sem rúmar góða bók sem ekki þarf að lesa í einum rikk, t.d. Snorra-Eddu eða Óvíd (ég þyrfti þá auðvitað að eignast Óvíd). Þar þyrfti líka að vera aukasett af prjónum og lopa. Nú eða teikniblokk og blíantur, skrifblokk og penni. Þetta síðastnefnda er reyndar í veskinu og í hana skrifaði ég í dag –meðan ég naslaði harðfiskinn sem ég keypti í Kolaportinu– titilinn að þessum pistli. Afköstin voru nú ekki meiri en það en mér leiddist ekki á meðan.

Ég ætla til Uzbekistan í ár, var ég ekki örugglega búin að tilkynna öllum það ;)
Svona telur maður á Uzbesku (Uzbek) –og skrifar tölurnar.  



1- Bir
2-Ikki
3-Uch
4-To'rt
5-Besh
6-Olti
7-Yetti
8-Sakkiz
9-To'qqiz
10-O'n
20-Yigirma
30-O'ttiz
40-Qirq
50-Ellik
60-Oltmish
70-Yetmish
80-Sakson
90-To'qson
100-Yuz
1.000-Ming
                                                                                1.000.000 -Million
                                                                                1.000.000.000- Milliard


13. janúar 2011

Meira af bókum, nú a la Yrsa

Ég er búin að heyra ýmsar reynslusögur manna sem hafa lesið nýjustu bók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, og  passaði mig þess vegna á að byrja lesturinn fyrir hádegi. Ég náði auðvitað að klára fyrir myrkur en samt voru óþægilegir skuggar í ýmsum hornum og dyragættum. Þess vegna lág ég í sófanum þangað til húsið fylltist af fólki en ekki skuggum. 

Strax í öðrum kafla bókarinnar varð ég fyrir vonbrigðum. Sjálfsagt gerði ég mér of miklar væntingar,  eftir að hafa hlustað á upplestur Yrsu í desember, og átti von á einhverju gerólíku fyrri sögum hennar. Forskriftin var svo bara á sínum stað eins og venjulega. Tvær löggur + einn læknir= klassísk þrenning, tvö óskyld mál sem fléttast saman í lokin. Önnur klassísk þrenning og svo framvegis.
Og svo – uppskrift úr kennslubók um skáldsagnagerð. Hvernig á að lýsa persónu án þess að lýsingin komi sem bein predikun  frá höfundi:  Nota t.d. spegil og láta persónuna horfa á sjálfa sig  og hugsa um útlit sitt!  
Æ, nei, hugsað ég, svona á bara að lauma í söguna smátt og smátt alla leið á endastöð í stað þess að leggja hálfa blaðsíðu undir það í upphafi! Svo skiptir þetta heldur engi máli þegar til kastanna kemur. Þetta og önnur svipuð atriði voru að trufla mig til að byrja með en þegar á leið og spennan jókst gleymdist það.  

Yrsu tekst vel að kalla fram gæsahúð og myrkfælni með þessari skáldsögu, ég lagð bókina ekki frá mér fyrr en hún var búin – en það er svo sem ekkert nýtt – og þorði varla að líta í áttina að myrkvuðu stigaopinu sem blast við úr stofusófanum. Ég jafnaði mig þó á þessu fyrr en varði, gekk meira að segja seint í gærkvöld  um  illa lýstan göngustíg við fjöruborðið án þess að hugsa að ráði um sjóblauta ærsladrauga. Nú velti ég frekar fyrir mér rökleysunni í sögunni.
Hryllingssögur um ærsladrauga eru, eðli málsins samkvæmt, ekki trúverðugar en þær hljóta að fylgja einhverri rökréttri hegðun eða framrás og það var ýmislegt í þessari sögu sem uppfyllti  ekki mínar kröfur um eðlilega hegðun afturgangna.  Sem dæmi hefi mér fundist að sjálfsagt að sagan endaði á tveimur draugum en ekki einum. En það er svo sem bara mín skoðun á „eðlilegum“ sjódraugum.  

Mér finnst sem sagt sagna þrælspennandi en held því  þó statt og stöðugt fram að kjörorðið „Ein bók á ári“ bitni á gæðunum. Mér er slétt sama hvað sölutölur segja.
 

12. janúar 2011

Freyðibað með Óvíd

     Ég verð ekki mosagróin á dögum eins og þessum, sem betur fer. Ein ferð með soninn út á Keflavíkurflugvöll klukkan 6,  smá lúr eftir það og svo snúningar við nám og vinnu áður en ég fór aftur út á Völl en nú í þýskutíma. Heim aftur með Of Mice and Men í eyrunum, próf í sama efni, vinna og svo sokkaprjón til að reyna að hreinsa heilann af áreyti dagsins. Mér tókst ekki vel upp við það, að hreinsa heilann sko, sokkurinn er ágætur.
     Eftir svona daga er full ástæða til að láta renna í  freyðibað og láta þreytuna leka úr sér yfir í heita vatnið– og góða bók. Langtíma reyfaralestur  verður stundum þreytandi og nú fannst mér kominn tími á að halda áfram með Óvíd. Reyna að rekja saman einhverja þræði í ættfræði rómverskra guða og átta mig á því hver drap hvern og hver áttti barn með hverjum.  Ég held að ég þurfi hjálpartæki eins og ættartré fjölskyldunnar með öllum nicknames til að átta mig á hver er hvað og hvaða nöfnum viðkomandi gegnir.

     Jæja, hvað er það sem Google frændi gerir ekki fyrir mann. – Hér er fjölskyldutréð og nú les ég ekki staf í viðbót nema hafa þetta fyrir framan mig.


     Eftir að hafa svo útvatnast með Óvíd í góðan hálftíma lá við að mér féllust hendur þegar heilinn sneri sér að hversdagsleikanum. Það eina sem kom í veg fyrir það var að þá hefði handklæðið dottið í gólfið og mér snöggkólnað. En – það var ekki um annað að ræða en skipta handklæðinu út fyrir viðeigandi gönguklæðnað og skella sér út í náttmyrkrið. Það er full mikið frost til að fara út í handklæðinu einu saman.

Skylduverkin eru þá afgreidd þennan sólahringinn og koddinn fær loksins að njóta nærveru minnar.Ekki nema tveggja tíma seinkun, það þætti ekki mikið hjá Iceland Express


 

11. janúar 2011

Er hér enn og labba enn

en hugsa mest um enska málfræði og ritgerðir.

9. janúar 2011

9/9

09.01.2011- 9/9- Vegna skelfilegrar upplifunar af bóklestri dagsins treysti ég mér ekki að ganga seint um kvöld i myrkri niðri við sjávarmál. Labbaði samt í 20 mín. um upplýstar götur íbúðahverfisins og náði því áður en nágrannarnir komust allir í nætur ról.
Það er stundum gott að sjá öðru fólki bregða fyrir i bíl eða á göngu seint um kvöld

7. janúar 2011

Enska 2

Miðað við bókalista hinna ýmsu námskeiða í íslensku og bókmenntum í HÍ veitir mér ekki af að hrista upp í sjálfir mér og einbeita mér að enskunni af einhverri alvöru.
Skólinn er byrjaður aftur, mæting í dag og á morgun og ég finn ekki hjá mér nokkurn dug eða löngun til að læra ensku. Svei því.
Kannski get ég selt mér það að ef ég verð dugleg eigi ég auðveldara með að lesa Fragile Things og fleira sem mig dauðlangar til að lesa en nenni ekki að vera marga daga með.  The Hero With A Thousand Faces bíður líka á skrifborðinu.
Svo byrjar þýskan bráðum, kannski ætti ég bara að  skoða þýskunámið í HÍ.

4. janúar 2011

Vorverkin í kirkjugarðinum

Eins og ég hef nú gaman að velta mér upp úr lesefninu mínu hérna, nema auðvitað námsefninu, hef ég ekki komið mér að því fyrr en nú að láta ljós mitt skína yfir Furðustrandir. Þó er nærri mánuður síðan ég lagði hana frá mér. 
Ástæðan gæti verið sú að Arnaldur er bara höfundur á því þroskastigi að maður getur ekki annað en kinkað kolli og samþykkt söguna. 

Maðurinn kann klárlega sitt fag, ég stoppaði aldrei í lestrinum og hugsaði eins og svo oft í öðrum sögum, svona talar fólk ekki. Nú eða, ææi, hvað er verið að lýsa endalaust því sem engu máli skiptir. Í Furðuströndum koma aldrei svona augnablik. Ólíklegustu athafnir Erlendar, að næturlagi í sjávarplássum á Austurlandi framkölluðu ekki einn stakan hiksta hjá mér. Oft er maður gagnrýninn á sögusvið sem maður þekkir vel en hér dáðist ég bara að því hvað rannsóknarvinnan var vel unnin. Kirkjugarðshliðið, grenitrén og verkfæraskúrinn allt á sínum stað, allt nema leiðið hans Jakobs –vonandi–.  

Sögupersónur eru sannfærandi, hvort sem það eru sérvitrar grenjaskyttur eða aðrir misfurðulegir karakterar. Annars, þegar ég hugsa málið má kannski setja spurningamerki við sérvitringa og furðufugla. Ég man ekki eftir eini sögupersónu sem er ekki smáskrítin, eða það væri kannski réttara að segja með áberandi sérkenni. Væntanlega er það þó dæmi um góða persónusköpun að ég skyldi ekki staldra við það í lestrinum. Við enn nánari umhugsun þekki ég auðvitað ekki neinn sem er ekki smáskrítinn og a.m.k. örlítið sérvitur á fullorðinsaldri. Sumir fæðast auðvitað sérvitringar, ekki síst ættingjar mínir þarna á Austfjörðum.


Endirinn á þessum þvælingi Erlendar inni á heiðum og fjöllum olli mér talsverðum heilabrotum, hann er svolítið eins og stjórnmálaflokkur fyrir kosningar. Alveg óbundinn og opinn í báða enda.  Furðustrandir, já hvaðan kemur nafnið annars,  er góð saga og Arnaldur er að hefja sig yfir reyfarann. Ég tek undir með þeim sem spá því að hann snúi sér að öðru skáldsagnaformi fljótlega.

Ég á svo öruggleg eftir að hugsa til Erlendar þegar ég fer að setja sumarblóm á leiðin mín í vor, líta  af og til um öxl og horfa upp í kirkjugarðshornið.

Nýjarskveðja að láni

Einn FB vinur minn benti okkur á þessa nýjárskveðju. Mér fannst hún svo góð að ég má til með að birta hana hér og óska þess í leiðinni að ég hefði haft hugmyndaflug til að semja hana sjálf.


Nýárskveðja frá Neil Gaiman:

May your coming year be filled with magic and dreams and good madness. I hope you read some fine books and kiss someone who thinks you're wonderful, and don't forget to make some art -- write or draw or build or sing or live as only you can. And I hope, somewhere in the next year, you surprise yourself.

3. janúar 2011

Vefjagigt og gönguþjálfun

Á vefsíðunni vefjagigt.is stendur meðal annars:
Þjálfun
Ávinningur fólks með vefjagigt af því að stunda þol- og styrktarþjálfun hefur oft verið staðfestur í rannsóknum og ætti því ætíð að vera hluti af meðferð. Þolþjálfun, styrktarþjálfun og þjálfun í vatni hefur gefið bestan árangur og felast áhrifin í bættri líðan, minni verkjum, þreytu, kvíða, og þunglyndi. Þjálfun hefur þessi áhrif meðan hún er stunduð reglulega, en ávinningur þverr smám saman ef þjálfun er hætt. 

Því miður liggur leiðin sífellt niður á við í eintómum vítahringjum þegar maður getur ekki lengur kýlt á stíft prógramm í nokkrar vikur til að koma sér í form aftur. Þjálfunarmörkin eru lág og með því að stunda ekki reglulega létta þjálfun lækka þau sífellt.

Nú langar mig óskaplega að kaupa mér áskrift að Baðhúsinu og reyna að koma mér í betra ástand en ég veit að það er óraunhæft. Tímarnir þar henta ekki og þess vegna lítil von um að ég héldi lengi út. Að setja sér óraunhæf markmið er verra en gera ekki neitt.

Ég gæti svo sem fundið hentugri þjálfunaraðila en þetta er lika spurning um peninga og forgangsröðun, ég tel sjálfri mér trú um að ég geti náð árangri með því að vera minn eiginn einkaþjálfari.

Sú þjálfun sem ég þarf að snúa mér að næstu vikur og mánuði eru þessir daglegu göngutúrar sem ættu að vera lágmark 20 til 30 mínútur á dag. Á síðasta ári tókst mér að ganga nærri  daglega í tæpa fimm mánuði, ég missti ekki nema 5 daga úr og þá vegna veikinda. Eftir að keðjan slitnaði tókst mér ekki að komast í gang aftur og leiðin lág hægt og bítandi niður á við. Nú ætla ég að byrja upp á nýtt.


Það hjálpaði mér að halda samviskusamlega –jæja, samviskusamlega er kannski orðum aukið– dagbók hér á blogginu yfir gönguþjálfunina og ég ætla að gera það aftur. Ekki til aflestrar fyrir ykkur sem eigið leið hér um heldur fyrir mig. Þetta blogg er nú svo sem allt fyrir mig gert hvort sem er ;-)

Ég lofa því samt að vera ekki með daglega tilkynningaskyldu yfir dugnaðinn eða dugleysið heldur hafa listann minn á lítið áberandi stað. Agaleysið er bara svo mikið að ég þarf á þessu að halda.

Svo gróf ég upp handlóð og passaði mig á að leggja þau frá mér eftir 5 en ekki 25 endurtekningar og slapp þar af leiðandi við verkjakast. Það getur verið erfitt að finna réttu mörkin þegar taugakerfið segir ekki til fyrr en sólahring eftir þjálfun.

Þetta er ekki áramótaheit, það er bara svo þægilegt að byrja að telja á 1. Nú er ég búin að labba 2 daga af 2 á árinu. Ég meina 3/3.

Sár

Þessa dagana iðka ég aðallega wwwíska umhverfisskoðun. Við það rak ég augun í að forláta bók sem ég hef í mörg ár vonast eftir að yrði endurútgefin er komin út. 

Það eru samt bara þrjú ár síðan! Er ég búin að vera andlega fjarverandi lengi?

2. janúar 2011

Gleði gærdagsins

verður stundum að rusli morgundagsins

hvaðan sem hún er upprunnin










Og í dag er þokan svo dimm að í hádeginu hefði þurfti þrífót við útimyndatökur.

1. janúar 2011

Veðurlýsingar og áramótaheit

                                                                                                                                                                          
Ég var að ljúka við áramótaheitstrengingu! 
Ég ætla að raða myndunum mínum beint í viðkomandi möppur í í tölvunni stað þess að dunda mér við að yfirfara hverja mynd, laga hana, laga lýsingu, laga contrasta,  laga white balance og hvað þetta nú allt saman heitir.
Hvers vegna í ósköpunum er ég að eyða tíma í þetta allt saman en ég set myndirnar í hendurnar á möppudýrinu sem fleygir þeim inn í möppur eftir óreiðukenndu skipulagi æðsta möppudýrsins. Því fyrr sem þær fara inn í skipulagið því betra og þá þarf ég kannski ekki að leita í marga klukkutíma að mynd sem ég veit að ég tók en finn hvergi nokkurstaðar.  Ég er búin að tína RAW útgáfunni af myndunum sem ég tók á nýjársdag í fyrra. Þetta gengur ekki!

1.janúar 2011
Ég skil vel að fólk stígi á stokk og strengir  áramóta heit, verst ef það misstígur sig strax við að fara ofan af stokknum.
1. janúar 2010
Það er í eðli okkar flestra að vilja vera í rútínu. Hún styrkir öryggiskenndina og veitir okkur ró. Ró og fullvissu um að dag hvern tökumst við á við verkenfi sem eru okkur ekki ofviða. 
Oftast er það svo að  mörg okkar þrífast ekki nema brjóta þessa rútínu upp annað slagið t.d. með því að skipta um vinnu, eða fara í nám með reglulegu millibili. Minniháttar upphlaup er að drífa sig á djammið, fara á fjöll, í fallhlífarstökk eða eitthvað sem velur adrenalín innspýtingu. Við viljum þó eiga val, fá að velja sjálf hvað  við gerum til að munstrið múri okkur ekki inni í blýhólknum til eilífðar nóns. 
Jól og áramót eyðileggja þessa rútinu og það vald sem við höfum yfir daglegum athöfnum. Markaðsöflin sveifla okkur mótspyrnulaust í kapphlaup spenu og hraða frá því á miðju hausti og fram yfir áramót. Þetta gerist árlega og ég segi fyrir mína parta að þegar þessi yndislegi tími –sem ég hef enga stjórn á hvenær skellur á og hvað ósköp dynja á öllum skylningarvitum daglega– er liðinn líður mér aftur vel.

Ég er lítið fyrir göfug áramótaheit með loforðum um heilbrigt líferni en um hver áramót varpa ég öndinni léttara og hugsa: Loksins er hægt að snúa sér að hversdagslegum skemmtilegum hlutum og pakka hátíðarátinu og álaginu inn næstu 11 mánuði. Og þannig varð til nýjarsdagsgönguhefðin mín.
Fyrsta nýjársgangan sem ég man eftir var farin inn í Búrfellsgjána í snjóhraglanda og vindstrekkingi. Þá fórum við tvær, Elín Bára sem heitir ekki Bára og Hafrún, sem heitir ekki Hafrún heldur Ásdís Hafrún í gönguferð til að prófa GPS tækið sem mér áskotnaðist jólin 2005.
Ég er ekki búin að læra almennilega á það enn!

Og við Keilir fögnuðum nýju ári 1. 1. 2011
Svo fór ég að rölta niður að Lónakoti, ein með mína myndavél og eftir fyrstu ferð, langaði mig aftur að ári liðnu og smella af sönnunargagni um margbreytileika íslensks veðurs. Myndirnar sem voru teknar árið 2009 finnast þó hvergi í tölvunni hjá mér. Ég er ekki sátt og ég er ekki hætt að leita, ég ætla bara að hvíla mig á því í nótt. 
1 janúar 2008
                                                                       
Frá því ég kom fyrst að bæjarstæðinu í Lónakoti hef ég verið heilluð af staðnum.
Bærinn fór í eyði þegar húsin tóku af í miklum sjávargangi 1940ogeitthvað, ég þarf að grafa það upp aftur. Þessi bær –og mig langar til að sjá myndir af síðustu húsum sem stóðu þarna– stendur alveg niður  við fjöruna og ég get ímyndað mér að í góðu brimi hafi brimdrífan þvegið bæjarhurðina. Það gætir sjáfarfalla í hraunbollunum ofan við húsgrunninn og langt inn eftir hrauninu.
Í einni af þessum hrauntjörnum syntu nokkrar álftir í dag en þegar ég mætti á svæðið og þegarég var loksins búin að raða saman þrífæti og myndavél tóku þær flugið og vinkuðu bless. 
1. 01. 2006.    Á leið í Búrfellsgjá með GPS bæklinginn.
Fjárhúsin sem ég hef smellt af í flestum ferðum þarna niður eftir eru greinilega ekki hluti af gömlu bæjarhúsunum en eigendur þessara húsa eiga örugglega tengsl við bæinn sem þarna var. Ég þekki það þó ekki, ég veit bara að í desember og janúar  er hægt að fá lykt af ekta kofareyktu hangikjöti. Finna lykt af taði og heyi og á vorin má sjá margar mislitar kindur, snemmbornar við fjárhúsin.
Ég kann því vel en ég kann ekki eins vel við djúpa hraungjótu sem umráðamenn svæðisins henda í öllum lífrænum og ólífrænum úrgangi sem þeir þurfa að farga.
01. 01. 2006 Og búnar að lesa bæklingin en eru engu nær.





                                                                                                                                                                    

2011

Gleðilegt ár!




Auðvitað ætti fyrsta færsla nýja ársins að vera annáll um atburði og afrek liðins árs. Annáll með hæfilegri blöndu af andríki og kaldhæðni. Mér dettur bara ekkert skára í hug en þetta klassíska „Gleðilegt ár“ og „Mikið svakalega er alltaf gaman að mynda flugelda.“






Þegar nýjársdagurinn fer svo að mjaka sér upp yfir austurfjöllin ætla ég í góðan göngutúr niður að Lónakoti og að sjáfsögðu verður myndavélin um borð.
Nýjársdagur 2010




Þessi tvö hafa nú samt alltaf verið uppáhalds myndefnið mitt.