28. október 2006

Fyrir nærri tveimur áratugum heyrðist nokkuð oft í eldra afkvæminu mínu ,,Megum við Magga baka jógúrtbollur" og mig minnir að svarið hafi oftast ef ekki alltaf verið jákvætt- en með skilyrðum um að frágangur í eldhúsinu væri hluti af bakstrinum. Þær stóðu samviskusamlega við að ganga frá eftir sig og nú er ég skömmuð fyrir að ganga ekki frá eftir mig!
En þessi jógúrtbollubakstur hér á árum áður varð sennilega til þess að nú bakar Tölvunarfræðingurinn í tíma og ótíma, finnst það lítið mál og mjög afslappandi handverk. Ég nýt þess í speltbrauðinu hennar í kvöld.

Annars vaknaði ég í morgun með einhvern krankleika og þreytuverki í öllum liðamótum og ákvað þess vegna að vera heima í staðin fyrir að sinna aukavinnunni. Sofnaði aftur í morgun og svaf til hádegis. Sofnaði aftur klukkan fjögur, dúðuð í lopapeysu, lopateppi og undir dúnsæng og svaf í tvo tíma í viðbót. Ég er dauðsyfjuð og er að hugsa um að sofa í sólahring í viðbót.

Það er nú annars bannað að vera lasin um helgar, til þess á að nýta virku dagana!

Engin ummæli: